31.7.06

Mánudagspartý

Helgin var annsi róleg svo ekki sé meira sagt. Eftir mikla göngutúra í síðustu viku fór ég að taka til í herberginu mínu og reddaði mér nokkrum hlutum í herbergið sem mér vantaði. Hlutir eins og þvottakarfa, þurrkgrind í eldhúsið og tannburstaglas. Síðan var stefnan tekin á að þvo þvott. En þá kom babb í bátinn. Þvottavélarnar hérna á campusnum taka aðeins 1 dollara klink og ég átti ekkert 1 dollara klink. Það er ekki hægt að fara í sjoppuna sem er rétt fyrir utan campusin og byðja um að skipta seðli fyrir sig. Svo nú byrjar söfnun á dollaraklinki svo ég þurfi aldrei að vera í vandræðum að þvo.

Nacho kom síðan heim úr ferð sinni um suður eyjuna á sunnudaginn. Ég þarf bara að hengja mig á hann og nýta mér tækifærið og kynnast fullt af fólki í gegnum hann. Nacho er nefnilega maðurinn sem þekkir alla. Fyndna er að honum langar að kynnast öllum og hefur áhuga á hverjum og einum sem hann hittir. Og öllum finnst Nacho skemmtilegur. Ég er alla vega búin að breyta brandaranum um mannin sem þekkti alla.

Ég er líka að hugsa um að nota tækifærið og elda með honum oftar. Það er einhvern vegin þægilegra að elda fyrir tvo heldur en einn. Í framhaldi af því ætla ég að byrja að elda í neðra eldhúsinu. Því í eldhúsinu á efri hæðinni eru aðallega Bandaríkjamenn og Asíubúar og það virðist vera lokuðustu hóparnar á campusnum. Á neðri hæðinni eru Þjóðverjar, Frakkar og social Bandaríkjamenn (svo virðist sem að social Asíubúar þrífist ekki á Railway Campus). Í gær var einmitt mjög gott dæmi um félagsskapin sem myndast hérna.

Ég eldaði spaghetti bolognese og þegar við vorum að elda kom Tommasi (Frakki sem Nacho þekkir) og bað um að fá lánaða Tefflon pönnuna því einhver Þjóðverji ætlaði að búa til crepes. Þetta endaði með því að maður var komin inn í afmæli hjá einni stelpunni og þar var setið fram eftir spjallað saman og drukkið (auðvitað allt í hófi). Sem betur fer byrjar skólin ekki hjá mér fyrr en klukkan 14 svo ég hafði ekki miklar áhyggjur þótt maður var ekki farin að sofa fyrr en klukkan 2 um nóttina. Þó voru nokkrir þarna sem þurftu að vakna mun fyrr.

Ótrúlega fyndið reyndar hvað maður getur rekist á mikið af stereo týpum hérna á campusnum. Einmitt í gær í partýinum var einn Englendingur frá York. Það var bara allt við hann sem hrópaði ég er eins týpískur ungur Englendingur og þú getur fundið. Hreimurinn, látalætin, húmorin voru bara eitt af því hjálpaði til. Fínn strákur reyndar eins og hvern einn og einasti sem maður hitti þarna í gær. Nú er bara að vona að svona lagað haldi áfram og þá mun þetta ár vera mjög fljótt að líða.

28.7.06

Bókakaup og grasagarðurinn

Fyrir mánudaginn þarf ég að vera búin að lesa 3 kafla í kennslubókinni í "Project Management 2" kúrsinum. Þess vegna þurfti ég að fara í leiðangur í dag. Eina sem ég vissi um bókina sem ég þurfti að kaup var að hún fæst í verslun sem heitir Tech Books og er í Newmarket. Newmarket er eins og nafnið gefur til kynna verslunarsvæði fyrir sunnan miðborgina. Svona svipað og Skeifan í Reykjavík. Reyndar virðist vera meira um tískubúðir og því um líkt heldur en í Queen Street. Fyrst þegar ég heyrði um þetta svæði fannst mér einhvern vegin eins og það væri verið að tala um verslunarmiðstöð og því var ég ekkert að fletta upp nákvæmari staðsetningu á versluninni. Þar sem ég er mjög heppin maður þá rambaði ég á búðina án þess að hafa mikið fyrir því.

Á leiðinni til baka labbaði ég í gegnum grasagarð Auckland búa. Í sjálfu sér er grasagarðurinn sjálfur ekkert svo stór en í tengslum við hann er stórt svæði af sparkvöllum bæði fyrir knattspyrnu og rugby. Nýja Sjáland er mjög vel tilfallið við ræktun á ýmsum hlutum og rakst ég meðal annars á Dúfutré í miðjum garðinum....

Rétt hjá dúfutréinu var held ég hið "ultimate" klifurtré. Myndin sem ég tók af því er ekki alveg nógu góð en menn geta rétt ímyndað sér hve gaman það væri að vera lítill aftur og príla aðeins í því. Persónulega hefði ég alla vega verað til að flytja það í tíma og rúmi í garðin í Langholtsveg 192.

Í garðinum var allskonar dýralíf (sá aðallega fugla af ýmsum gerðum en ein rotta var að þvælast þarna líka, ég reyndi að taka mynd af henni en hún var fljót að koma sér í burtu þegar hún heyrði mig bisast við að breyta um linsu). Þarna á vappi voru síðan íþróttamannslegavaxnar endur og það var ekki laust við að óeðlilega mikið af munnvatni myndaðist þegar ég labbaði fram hjá þeim.

Ég er síðan búin að finna staðin sem ég mun eyða mestum tíma mínum á. Á reyndar eftir að finna út hvenær dags er best að mæta en í grasagarðinum er ekta keiluspils klúbbur. Auðvitað sem hefðarmaður verður maður að taka þátt...

25.7.06

Læmingjar

Hvað vitið þið um læmingja? Allir vita auðvitað að reglulega þegar læmingjar, á ákveðnu svæði, eru orðnir of margir þá leggja þeir af stað í leit að nýjum dvalarstað. Á leiðinni fara þeir blint áfram og jafnvel deyja við að falla fram af klettum eða drukkna þegar þeir taka feil á vatni/sjó og á. Þetta eru almenn sannindi sem jafnvel leikjaframleiðandi notfærði sér til að búa til vinsælan og góðan leik.

Hérna koma tveir hlekkir sem segja það sama og kannski breyta áliti ykkar á þessu litlu dýrum og jafnvel Disney fyrirtækinu sjálfu.

http://www.anomalies-unlimited.com/Disney/Lemmings.html
http://www.snopes.com/disney/films/lemmings.htm

23.7.06

Sunnudagsmáltíðin

Verð að segja að þetta hafi verið annsi róleg helgi hjá mér. Bæði Nacho og Chris voru að heiman svo ég hafði íbúðina alveg fyrir mig. Jahúuú, eins og það skipti miklu máli. Sameiginlega plássið okkar er svo lítið að það er varla hægt að standa við vaskinn til að smyrja sér samloku. Ég væri til í að þar hefði alla vega verið pláss fyrir smá borð sem maður gæti setið við meðan maður snæddi morgunmatinn en svo gott er það ekki. Eyddi mestan partinum af sunnudeginum í ekki neitt heldur tók bara letina á þetta og spilaði Civilization 4.

Mér var reyndar hugsað til íslenskrar lambasteikur á meðan ég japlaði á tortellini með pulsum og spaghettisósu. Ég nefnilega tók mig til aldrei þessu vant að elda mér eitthvað. Það er nefnilega hægt að telja á fingrum annarar handar hve oft ég notað eldhúsaðstöðuna hérna. Eldhúsaðstaðan sem ég hef aðgang að hérna á Railway Campus er alveg ágæt í sjálfu sér. Þetta eru gas hellur og rúmgóður ofn, síðan er hver íbúð með 1 ísskáp/frysti og skáp þar sem maður getur kannski geymt potta, pönnur, krydd og uppþvottalög.

Eina sem háir mér er að ég kann eiginlega ekki að elda fyrir einn. Allar uppskriftirnar og aðferðirnar sem ég er með í kollinum enda yfirleitt með svo mikið að ég þyrfti að taka hálfa hyllu í ísskápnum undir afganga og borða það sama út vikuna. Þar sem ég er mjög "nýjungagjarn" maður (lesist sem ferningur sem langar ekki í sama matinn dag eftir dag.) er þetta eitt af þeim atriðum sem ýta undir það að ég fái mér bara samloku upp á herbergi. Því auglýsi ég hér með eftir ábendingum um uppskriftir og aðferðir svo ég fari oftar í eldhúsið. Ég vill sérstaklega taka það fram að ábending um að minnka skammtastærðir verður ekki tekin til greina þar sem hún er of augljós.

22.7.06

Göngutúr í góðviðrinu

Fór í dag í smá göngutúr um Auckland. Labbaði í átt að Victoria Park sem er einn af tveimur stórum almennings görðum í stuttu göngufæri frá mér. Leið mín lá þvert yfir Queens Street, sem er Laugavegur þeirra Auckland búa. Þar var einmitt í gangi mótmælaganga. Hún hefði einmitt sómað sér vel á Íslandi því þáttakan var svo lítil. Eiginlega má segja að þessi ganga hefði örugglega öfug áhrif á flesta sem voru þarnar því hún gerði lítið til að vekja áhuga manns á þessu málefni. (Auðvitað var verið að biðja um hærri laun.)

Þegar ég kom í Victoria Park rakst ég á Aucklands útgáfuna af Kolaportinu. Þetta er flóamarkaður sem er staðsettur í einhversslags gömlu verksmiðjuhúsnæði. Frekar fyndið að koma þarna inn. Varð eiginlega strax hugsað til Tótu því ég er alveg viss um að hún myndi hafa gaman að sjá þetta. Verð reyndar að viðurkenna að þetta var ekki mjög stórt, eiginlega jafn stórt ef ekki minna en Kolaportið. Þarna inni var þó reyndar eitt frekar skondið. Það var hægt að leigja eftirlíkingar af fötum frá miðöldum. Ég er að spá í að halda afmælið mitt þannig....

Á leiðinni heim rölti ég í gegnum bryggjuhverfi. Þarna voru ýmsar snekkjur og skútur en aðallega í stærri kantinum. Ein hefði sómað sér vel sem snekkjans hans Lex Luthor í Superman. Ég held að pabbi ætti að tala við hann Gísla hafnarstjóra og benda honum á að í Auckland séu rosalega flott bryggjuhverfi sem pabbi verði að skoða áður en þær endurhann allt Mýrargötu svæðið...bara hugmynd. Annars var eitt húsið þarna rosalegt. Þetta voru allt fjölbýlishús og viðkomandi hús var með opið svæði í miðjunni þar sam hægt var að legja snekkjunum. Síðan var skipastigi sem tengdi allt heila klabbið við höfnina. Það var alla vega óhætt að segja að maður horfði með öfund á alla þessa báta og ekki laust við að maður hafi byrjað að reyna að finna leiðir til að útvega sér nægjanlega mikin pening til að setjast þarna að.

20.7.06

Matarboð og ég vildi að það væri matarboð...

Síðustu dagar eru búnir að vera frekar rólegir. Skólin er ekki komin almennilega í gang. Það er varla að kennarar hafi sett fyrir þessa fyrstu daga. Hérna hefurðu tvær vikur til að "lagfæra" skráninguna þína og því er oft þeir nemendur sem mæta í fyrsta tíman ekki endilega þeir nemendur sem verða út önnina. Ég mun þó hafa eitthvað til að lesa yfir helgina en ég mun líka hafa nægan tíma til að skoða mig um.

Á þriðjudaginn bauð Nacho mér í mat ásamt fullt af fólki sem hefur dvalið hérna á Railway Campus síðustu mánuði. Þetta var mjög gaman. Fyrst var sameinast að fara út í Foodtown til að versla í matin, þar var bara raðað í körfurnar og reynt að hafa það þannig að hver karfa kostaði jafn mikið. Þegar við komum til baka á campusinn var safnast saman í eldhúsið og þar skipaði Nacho fyrir og eldaði 3 paellas, 2 sjávarrétta og eina kjúklinga. Óhætt að segja að þetta hafi verið skemmtilegt en leiðinlegast er þó að flest allir í þessu boði eru að fara heim fljótlega í næsta mánuði og var þetta að mörgu leyti kveðjuhóf þessa hóps.

Ég er búin að mæta núna í tvo kúrsa, annars vegar framkvæmdafræðina sem var á mánudaginn og síðan var Transportation Planning á þriðjudaginn. Ég veit eiginlega ekki alveg hverng best er að kalla hann á ástkæra en hann fjallar um líkanagerð í gatnahönnun. Ég held að það verði mjög áhugavert að taka hann sérstaklega þar sem hann fjallar um hluti sem ég hef ekki kynnst áður. Í mínu námi hefur aðallega verið að fjalla um efnið sem notað er og hvaða vegtegund eigi við viðkomandi umferð en aldrei hvernig þú spáir fyrir um viðkomandi umferð.

Skemmtilega er að kennarinn í þessum kúrs er nýkomin af ráðstefnu á Íslandi. Ráðstefna sem var haldin við Háskóla Ísland viku áður en ég fór út. Kennaranum fannst þetta frekar fyndið þegar við vorum að kynna okkur í tímanum. Kennarinn er frá Hong Kong og verður að segjast að ég muni hlæja að henni í vetur, það er eitthvað við hvernig hún talar og hagar sér í tímanum sem lætur mann fylgjast vel með til að vera viss um að missa ekki af neinu skrýtnu sem fram fer.

Annars hafa síðustu tveir dagar verið frekar ómerkilegir. Maður er ekki ennþá búin að kynnast mikið af fólki og því hefur maður eytt dágóðum tíma í að lesa og leika sér í tölvunni. Ég neyðist víst örugglega bráðlega að gera eitthvað í þessu þar sem ég verð fljótlega búin að klára lesefnið mitt og fá leið á tölvunni. Reyndar mér til varnaðar má segja frá því að síðustu tveir dagar hafa einmitt minnt mann á að hér sé ekki sumar. Loksins er komið veður sem er verra en heima. Reyndar var mjög áhugavert að kíkja aðeins út í rigninguna í gær því það er sjaldan sem maður lendir í alveg lóðréttri rigningu.

Hef reyndar ekkert kíkt á veðurspána, en ég ætla að vona að það viðri vel til loftárása um helgina. Stefnan er alla vega að skoða bæinn meira og kannski að fara að læra á þetta blessaða almenningssamgöngukerfi.

17.7.06

Fyrsti alvöru dagurinn

Fyrsti dagurinn í skólanum er alltaf skrýtin. Hvað þá að upplifa hann þegar maður er farin að halla á þrítugt? Þetta er eiginlega búið að vera frekar furðulegur dagur þótt að hann hafi gengið mun betur heldur en ég bjóst við.

Ég er ennþá að aðlaga mig að tímanum, frekar furðulegt að víxla svefn og vöku svona algjörlega, og því vaknaði ég nokkrum sinnum í nótt. Má kannski skrifa það bara á kvíða en ég held mig við fyrri útskýringuna.

Byrjaði í morgun að tala við hana Julietta hjá alþjóðaskrifstofu Háskólans í Auckland. Fyrir utan að hitta hana og fá upplýsingar um námið mitt þurfti ég að redda tveimur málum. Í fyrsta lagi hafði sendiráð Nýja Sjálands í London aðeins gefið út vegabréfsáritunana mína til 30. júlí og í öðru lagi hafði kúrsunum sem ég var skráður í fækkað í 1 úr 3. Juliette gat hvorugu reddað á staðnum en beindi mér inn á réttan veg til að laga bæði vandamálin.

Innflytjendaeftirlitið fannst vandamál mitt helst til vandræðalegt og voru fljótir að kippa því í liðinn. Reyndar var konan sem afgreiddi mig svo sorrý að hún bætti við leyfi svo ég gæti unnið á meðan dvöl minni stendur. Á nú samt ekkert von á því að nýta mér það en maður veit aldrei.

Þegar ég ræddi við rétta aðila um kúrsana mína kom í ljós að í einum þeirra var ég eini skráði þáttakandinn og hinn er ekki víst um að verði kenndur vegna skorts á starfsfólki. Sá kúrs er ég dáldið sár að missa þar sem hann fjallar um jarðskjálftatækni tengdri jarðvegi. Ég skráði mig þó í tvo nýja kúrsa (annan tengdan vegagerð og hinn framkvæmdafræði) og síðan fer eftir því hvernig fer með jarðskjálftatæknina hvort ég taki hana eða “Slope Engineering”, sá kúrs gæti verið nokkuð áhugaverður því hann fer dýpra í hlut sem ég hafði aðeins farið yfir á hundavaði áður. (Slope engineering fjallar um útreikinga á stöðugleika hallandi flata og þar með talið jarðvegsstíflur.)

Fyrsti tímin minn var líka í dag. En það er í Framkvæmdafræði. Kennarinn þar virðist vera annsi skemmtilegur náungi léttur og með vísanir í dæmi sem eru oft mjög skemmtileg. Skemmtilegast við hann er þó það að hann er smámæltur. Ég átti dáldið erfitt með að halda einbeitingu og ekki hlæja þegar hann byrjaði að tala. En samt sem áður virðist hann vera sambærilegur við betri kennarana heima svo á meðan svo er get ég lítið kvartað.

Fór að sjá Superman Returns í gær. Alveg ágætis mynd þótt mér finnst að þeir hefðu alveg mátt semja nýja tónlist í stað þess að endurnýta gömlu. Tónlistin ostaði myndina aðeins upp og stundum fékk ég bara flashback í gömlu myndirnar og það er ekki eitthvað sem manni langar. Myndi samt segja að myndin virki betur í kvikmyndahús heldur en á myndbandi.

15.7.06

Fyrstu kynni

Er ennþá að halda mér vakandi svo hérna kemur blogg númer 2 í dag....

Er búin að kynnast gaurunum tveimur sem eru í hinum tveimur herbergjunum sem. Þetta eru félagarnir Nacho frá Spáni og Chris frá U.S.A. Svona "first impression" er að mér muni líka betur við Nacho heldur en Chris. Chris er einmitt svona gaur sem maður myndi ímynda sér að sjá í einhverri College kvikmynd, enda vissi ég strax hvaðan hann kom þegar hann opnaði munnin á sér. Kom mér reyndar dáldið á óvart hvaðan Nacho kom því hann tala mun betri ensku en landar hann. Eins og týpískur Spánverji þá er hann með gítarinn með sér, svo Guðný hafðu engar áhyggjur ég fæ að glamra á gítarinn við og við.

Er komin með herbergið nokkurn vegin eins og ég vill hafa það. Alla vega komin með nógu mikið af evrópskum innstungum svo ég geti verið með þá hluti sem ég vill í sambandi. Reyndar væri ég til í að skrifborðið væri aðeins stærra. Sé fram á leiðinlega heimavinnu þar sem fartölvan mun flækjast fyrir. Veit reyndar ekkert hvað mikið ég mun geta notfært mér hana. Þyrfti alla vega að finna fljótlega út hvar og hvernig ég get prentað út. (Enda maður ekki bara á því að kaupa hræódýran prentara einhvers staðar nálægt.)

Í seinni göngutúrnum í dag rakst ég á bíó sem er bæði að sýna Superman og Pirates. Veit ekki hvenær ég skelli mér á þær en það verður örugglega bráðlega. Fann líka lítin garð sem er rétt við Háskólan, fínt að skella sér þangað á góðum degi og læra. Prófaði síðan að labba stystu leið frá skólanum að campusnum. Komst að því að á þeirri leið er dáldið vanskapaðar tröppur. (Það verður mynd af þeim í albúminu um leið og ég kem því af stað.) En þar er verið að ná upp u.þ.b. 20 m hæðarmun á 5-10 m. Ég hef alla vega aldrei séð svona brattan göngustíg eins og þarna.

Er að spá í að horfa aðeins á DVD áður en ég fer að sofa. Gæti reyndar sofnað núna en ég verð eiginlega að halda mér vakandi næstu 2 tímana eða svo annars fara næstu dagar í vaskinn hjá mér.

Þá er ég komin á áfangastað....

Jæja, þetta tókst að lokum að koma mér til Nýja Sjálands. Þótt að ferðalagið hafði byrjað vel þá var miðpunkturinn og endirinn ekki eitthvað sem mig langar að endurtaka. Var mættur rétt um 2 tímum fyrir brottför upp á Keflavíkurflugvöll. Þar náði check-in röðin út að dyrum því allar rúturnar úr Reykjavík voru nýbúnar að tæma sig. Gekk þó furðu fljótt fyrir sig að komast að og stúlkan sem afgreiddi mig vildi allt fyrir mig gera. Meira að segja tjékkaði hún töskuna mína alla leið til Auckland.

Eins og alltaf var ég fljótur að klára mig af í Duty Free. Nældi mér í eina góða myndavél og síðan ekki söguna meir. Nennti ekki að burðast með allt of mikið alla leiðina til Auckland. Fékk mér síðan eina samloku á meðan ég hringdi í Reyni og Sigga Erlings (meistarverkefnis kennari minn) því ég hafði gleymt að láta þá vita af brottförinni. Á meðan dundaði ég mér að taka upp myndavélina og pakka henni niður í þar til gerða tösku.

Fyrri flugferðin var alveg ágæt. Las tvær bækur og reyndi að halda mér vakandi alla leiðina. Þessar Flugleiða vélar eru svo sem allt í lagi svo lengi sem maðurinn fyrir framan hallar sér ekki aftur. Þá er eins og það sé búið að loka mann ofan í kassa og innilokunarkenndin gerir vart við sig. Það var dáldið nett að koma fljúgandi yfir San Francisco og sjá Golden Gate gægjast upp úr skýjahulunni sem lá yfir borginni. En ég náði ekki að njóta þess né að taka myndir þar sem ég var ekki með gluggasæti. Ég var líka farin að ókyrrast dáldið þar sem aðeins voru tæpir 2 tímar í brottför Air New Zealand til Auckland.

Þegar ég komst framhjá passa eftirlitinu, sem ég hélt reyndar að ég þyrfti ekki að fara í gegnum þar sem ég var transit farþegi, þá ætlaði ég að strunsa fram hjá "Baggage Claim". Þar stoppaði tollari mig og tjáði mér að ég þyrfti að sækja töskuna mína. Ég hvað svo ekki vera þar sem ég hafði checkað hana inn alla leið. Hann sagðist skyldi lofa mér því að taskan mín kæmi þarna. Við þetta stressaðist ég upp og ákvað að bíða þarna til vonar og vara. Ekkert gekk hjá þessum vallar starfsmönnum að koma töskunum á bandið og ég var farin að spá í að hlaupa og ná í hana. En allt kom fyrir ekki og loks fékk ég töskuna, og var þá rétt rúmur klukkutíma í vélina.

Tollarinn brosti að mér þegar ég labbaði fram hjá honum, en ég var þó orðin svo stressaður að ég stein gleymdi að þakka honum fyrir ábendinguna. Checkaði mig inn í flugið og afgreiðslumaðurinn benti mér á að það væri byrjað að boarda vélina. Ég þaut í gegnum security og labbaði beint inn í sæti. Var ekki fyrr sestur en vélin fór í loftið.

Ég ákvað að halda mér vakandi til að byrja með og sofa síðustu 8-10 klukkutímana. Vélin sem ég var í var dáldið betri en Flugleiðavélarnar sem ég hef farið í. Þarna var hver einstaklingur með sér sjónvarpskjá og fjarstýringu í "armrestinu". Af valmyndinni var hægt að velja velja nokkrar tugi kvikmynda og annað eins af sjónvarpsþáttum. Einnig var hægt að spila einhverja tölvuleiki ef manni langaði til. Plássið var þó ekki mikið meira, og ég held meira að segja að þegar manneskjan fyrir framan mig hallaði sér aftur hafi plássið verið minna. Þótt ég hafi reynt eftir mesta megni að sofna seinni helmingin á ferðinni gekk það helst til brösulega.

Kom frekar þreyttur og syfjaður á flugvöllin í Auckland. Fór beint í vegabréfs eftirlitið og þá kom í ljós annsi skondin mistök. Þeir sem gáfu mér VISA voru ekki alveg að hugsa því í passanum mínum stendur að það renni út 30.júli 2006, sem sagt eftir 15 daga. Ég var þó með bréf sem sýndi að það átti að renna út að ári. Eftir mikla reikistefnu, þar sem eftirlitið vildi allt fyrir mig gera, var mér hleypt inn í landið og beðin um að redda þessu á mánudaginn. Þeir geta nefnilega ekki breytt þessu á staðnum út af einhverju sem ég náði ekki alveg (var orðin annsi þreyttur á þeim tímapunkti).

Þegar ég loksins komst út úr þessu öllu, fór í gegnum tollin eins og ekkert var, hafði bílstjórinn minn gefist upp og skroppið frá í smá tíma. Þurfti því að bíða eftir honum í u.þ.b. hálftíma eða svo. Bílstjórinn var mjög nice gaur sem bennti mér á ýmsa staði sem ég ætti að kíkja á og hvar skólin var o.s.frv.

Þegar ég komst loksins á campusinn tók samt ekkert betra við. Móttakan opnar ekki fyrr en klukkan 9 á helgum og því þurfti ég að bíða í tæpa 2 tíma áður en ég fékk herbergið mitt.

Er búin að eyða deginum að redda mér ýmsum hlutum sm ég gæti þurft, svo sem millistykkjum á rafmagnsklærnar, rúmföt og sæng. Klúðraði því reyndar því pakkin sem ég keypti innihélt tvö lök og ekkert sængurver. Fyrir utan að sængin sem ég keypti myndi sóma sér vel sem yfirbreiðsla á Queen sized rúm.

Er núna alveg að leka niður en klukkan er bara ennþá 15:30 og ég þarf alla vega að halda mér vakandi fram yfir átta í kvöld. Ætla að skella mér í annan göngutúr og kannski redda ýmsum hlutum sem ég fattaði ekki að kaupa áðan.