27.9.06

Sjóræningjar og fallhlífarstökk

Jæja, ég veit ég ætti að vera duglegari að skrifa eitthvað hérna fyrir þær 3 persónur sem lesa þetta blessaða blogg. En einhvern vegin þá finn ég mér eitthvað annað að gera en að skrá niður nokkrar línur. Það þarf ekkert endilega að vera eitthvað uppbyggilegt en alltaf er það eitthvað. Álagið í skólanum er þó að aukast því ekki eru nema 4 vikur í próf. Ég er svona sæmilega stressaður fyrir þetta allt saman en þetta mun allt reddast eins og íslenskt orðatiltæki staðfestir.

Á föstudaginn var haldinn kvöldverður hérna á Railway sem átti að vera í formlegri kantinum. En þar sem þema kvöldsins var sjóræningjar var merkjum þeirra haldið mikið á lofti. Sumir tóku þemað full alvarlega og skrýddust leigðum búningum á meðan aðrir létu sér nægja að kaupa plast sverð í $2 búðinni á Queen Street. Sá sem stóð þó upp úr var James kallinn sem tók þemað svo alvarlega að hann þambaði romm allt kvöldið. Mikið var talað um að honum yrði hent út af campusnum daginn eftir en allt kom þó fyrir ekki og hann er enn hér.

Á boðstólum voru ýmsar kræsingar, allt frá girnilegur nautakjöti til grillaðs kjúklings. Þetta var hlaðborð af bestu gerð og var sérstaklega áhugavert að hugsa til þess að við borguðum ekki nema $10 fyrir þetta allt saman. Og fengum við meira að segja að eiga vínglösin sem merkt voru Railway. Kvöldið var allt hið skemmtilegasta og var dáldið skondið hvernig fólki tókst að koma inn í umræðuna ýmsum sjóræningja máltækjum....arrrrr

Á sunnudaginn gerði ég þó eitt sem mig hefur lengi langað til að gera. Ég ásamt nokkrum af campusnum skelltum okkur í fallhlífarstökk með kennara. Ég gat alveg sagt að ég var ekki fyrir vonbrigðum með stökkið þótt að adrenalín flæðið hafi verið mun minna heldur en ég bjóst við. Við skulum samt orða það þannig að ég er mikið að spá í að punga út dágóðri summu til að fara á námskeið sem endar með fyrsta einstaklingsstökkinu þínu.

Við vorum sótt klukkan 13:00 á sunnudaginn hérna á Railway og keyrðum í 40 mínútur að stökkstaðnum. Þetta var bara svona svipaður flugvöllur og Sandskeiðið en í stað hrauns og fjalla voru þarna grasi grónir hólar og kindur á beit. Það var eiginlega ótrúlegt hvað allir voru rólegir á meðan við biðum og það hvarflaði ekki einu sinn að neinum að hætta við. Eitthvað tilboð var í gangi þarna sem leyfði þér að borga um 5% meira til að stökkva úr 14.000 fetum í stað 12.000 feta, og var ég eini sem lagði í það.

Þetta var bara eitthvað svo skrýtið allan tíman. Í fyrsta lagi fékk ég aldrei sting fyrir hjartað eða kvíða eins og þegar ég fór í teygjustökkið eða áður en rússíbani leggur af stað. Maður sat bara rólegur í flugvélinni og þegar tímin var komin hoppaði maður út úr vélinni kyrfilega bundin við kennaran. Þetta var eitthvað svo óraunverulegt á meðan maður sveif í frjálsu falli í átt að jörðinni. Síðan þegar fallhlífin opnaðist tók bara við skemmtilegt svif niður til jarðar. Eina sem gerði þetta ekki skemmtilegt var hvernig ólarnar hertust upp í nárann á mér og var ég því mjög feginn þegar ég lenti og gat losað um þær. En upplifunin var einstök og eins og ég sagði hér að ofan þá er ég mikið að spá í að eyða smá pening í að fá leyfi í einstaklingsstökki. En það yrði þó örugglega ekki fyrr en eftir jólin.

18.9.06

Oh the drudgery

Ég verð bara að segja eins og er að síðasta vika hefur verið ein sú leiðinlegasta sem ég hef upplifað síðan ég kom hérna. Eina sem ég er búin að vera að gera er að læra á milli þess sem ég stelst til að leika mér aðeins í tölvunni. Það er meira að segja búið að vera svo lítið að gerast að ég hef ekki einu sinni smellt af einni einustu mynd síðustu tvær vikurnar. En vonandi breytist það aðeins um helgina.

Verkefnið sem ég er búin að vera að vinna að er þó reyndar frekar áhugavert en það fjallar um áhættumæt fyrir raforkukerfi og er þetta fyrir Infrastructur Asset Management. Ég er þó búin að vera frekar stressaður með þetta þar sem þetta er fyrsta alvöru ritgerðin sem ég þarf að skrifa hérna og ég hef litla hugmynd um hvað kennarinn er í raun og veru að leita að. Held þó að ég hafi tekist að koma efninu frá mér á þokkalegan máta en maður veit aldrei. Það er búið að vera læðast að mér sá lúmski grunur að ég hafi tæklað efnið einum og víðtækt en miðað við það sem maður hefur verið að heyra frá krökkunum hérnna í kringum mann þá ætti þetta að reddast.

Nú tekur bara við að galdra fram lítin fyrir lestur um þetta efni. Mun reyndar fá smá smjörþef af hvernig þetta mun fara fram og hvað ég þarf almennilega að segja. En þetta er bara 5 mínútna kynning á efninu þar sem einkunnagjöfin er 50% að þora að fara fyrir framan bekkin og kynna þetta. Versta er að ég hef bara ekki fundið góðan Farside brandara til að krydda kynninguna.

Annars var ég í einu skrýtnasta prófi sem ég tekið í síðustu viku. Hef þið hafið einhvern tíman lent í tímaþröng reynið þá að margfalda það með 10 og þá fáið þið út tíman sem ég hafði. Þetta voru bara 5 spurningar sem við áttum að svara á 45 mínútum. Eins og vanalega var ég bara rólegur á því og áður en ég vissi hafði kennarinn tilkynnt að tímin væri hálfnaðu og þá var ég rétt að byrja á dæmi númer 2. Ég náði aðeins að klára 3 dæmi og ég veit ekki einu sinni hvað mikið af því var rétt. Reyndar skal tekið fram að ég var kvefaður og þreyttur þegar prófið fór fram svo það skemmdi aðeins fyrir.

Við erum búin að stofna fótboltaklúbb hérna og ætlum okkur að spila 1 sinni í viku. Ætla að muna eftir myndavélinni í næstu viku og smella af nokkrum sinnum. Reyndar tókst mér að meiða mig í leiknum í dag en það var bara svona týpískur ég. Lenti í samstuði við annan spilara og lenti á jörðinni með vinstri hnéið fyrst. Ég þurfti að haltra heim og hnéið er ennþá að angra mig smá, á þó von á því að allt verði komið í lag á morgun eins og svo oft áður.

Um helgina er stefnan tekin á fallhlífarstökk. Krakkarnir smelltu sér um síðustu helgi til Taupo til að stökkva en gátu það ekki vegna veðurs. Ég komst ekki þar sem ég var að læra alla helgina. Við ætlum því að reyna um helgina og því er bara að krossleggja alla mögulega hluti og vonast eftir góðu veðri.

10.9.06

Skóli og lærdómur

Ein góð spurning...af hverju í fjandanum læri ég aldrei að fresta ekki hlutum fram á síðustu stundu? Ég hef einhvern vegin alltaf gert þetta, það er þegar ég fæ verkefni í hendurnar sem ég á að skila þá hugsa ég alltaf hvað ég hef mikin tíma og fresta því að hefjast handa og gleymi síðan verkefninu. Síðan nokkrum dögum áður en skilafrestur rennur út þá dettur mér allt í einu að ég á eftir að gera verkefni og byrja þá loksins að gera eitthvað. Þetta er einmitt stóra ástæðan fyrir því að lítið hefur birst á þessu bloggi síðan ég bjó til sagnabálkin um kayak ferðina.

Daginn eftir að við komum heim fórum við reyndar í smá dagsferð á Piha og Bethel Beach. Ætluðum að reyna fyrir okkur á brimbretti en þar sem bílaleigubíllinn okkar var frekar lítill og ekki með toppgrind urðum við að skilja brettið eftir. Reyndar voru einhverjar raddir um að menn væru ekki ennþá búnir að jafna sig eftir ferðina en það var ekkert hlustað á svoleiðis rugl. Ferðin var annsi skemmtilegt og meðal annars fengum við okkur að borða á veitingastað sem er í um 400 m yfir sjávarmáli og höfðum við útsýni yfir alla Auckland.

Sumir höfðu aðeins meiri orku en aðrir og var meðal annars spilaður smá fótbolti í sandinum. Þegar hægðist á fólki var ákveðið að búa til sandskúlptúr og var einn slíkur gerður í formi krókódíls. Tímasetningin okkar gat þó ekki verið betri því um það leyti sem við vorum að fara heim var komið að sólinni að setjast og er óhætt að segja að fegurðin hafi magnast upp við það.

Um helgina fór Nacho síðan heim og hef ég því verið einn hérna í herbergjunum þremur því Chris er búin að vera á ferðalagi um suðureyjunni síðan áður en við komum heim. Reyndar er Railway búið að vera að mestu tómt þar sem margir hafa notað tækifærið og skellt sér í ferðalag svo ég hef eytt mestum tímanum mínum í að vinna upp allt sem ég trassaði í ágúst og þarf að skila á morgun. Ég er stundum búin að vera svo slæmur að ég hef ekki nennt eða hreinlega bara gleymt því að fara niður í eldhús og elda mér mat og í staðinn setið eins og límdur fyrir framan bækurnar þangað til að garnirnar láta vita af hungrinu og ég neyðist til að fá mér samloku. Reynar verður næsta vika eitthvað svipuð því eftir næstu helgi þarf ég að skila ritgerð og flytja fyrirlestur um Áhættumat fyrir raforkuframleiðslu. Ekki búast því við innihaldsmiklu bloggi eða hvað þá einhverju bloggi fyrr en eitthvað fer að gerast hérna niður frá.

p.s. Ella systir sendi mér þetta snilldar myndband og ég ráðlegg öllum að kíkja á það og komast í smá gott skap. Ég er búin að horfa á það svona 10 sinnum og brosi alltaf jafn breitt.

4.9.06

Marlborough Sounds


Jæja loksins kemur sagnabálkurinn sem allir hafa verið að bíða eftir. Er búin að vera frekar latur síðan ég kom heim úr kayak ferðinni og tel ég það mjög skiljanlegt miðað við að við rérum 5-6 klukkustundir á dag á milli náttstaða. En það er óhætt að segja að ég skemmti mér konunglega og er alvarlega að hugsa um að smella mér á einn sjó kayak þegar ég kem heim að ári. Við vorum 5 sem fórum í þessa ferð. Ég, Nacho herbergisfélagi minn, Mathieu frá Frakklandi sem er góður vinu Nacho (ég er með honum í nokkrum tímum svo ég býst við að tala meira við hann þegar líður á önnina), Lisa frá Svíþjóð sem er kærasta Mathieu og einnig góðvinur Nacho (þau tvö eru fyrsta fólkið sem Nacho hafði samskipti við þegar hann kom til Nýja Sjálands. Í hópinn bættist síðan Frankie en hann er frá New York sonur kínverskra innflytjenda ef einhver hefur áhuga á þeim upplýsingum.


Dagur 1
Ferðin hófst snemma á laugardagsmorgni en Mathieu var mættur klukkan 5:30 fyrir utan Railway til að sækja mig, Nacho og Frankie. Nacho hafði reyndar verið úti að skemmta sér alla nóttina því þetta var síðasta tækifærið hans til að sjá mikið af því fólki sem við höngum með hérna á campusnum. Þetta hafði þau áhrif að við vorum óratíma að komast í burtu þar sem hann þurfti að faðma hverja einustu persónu sem stóð þarna fyrir utan. Eftir að okkur tókst loksins að koma Nacho fyrir í bílnum var náð í Lisu áður en við byrjuðum 10 tíma keyrslu suður til Wellington.

Við komum til Wellington rétt að verða 17:00 og var það mestu um að kenna að við lentum í mikilli röð þar sem vegurinn hafði farið í sundur rétt fyrir norðan Wellington. Svo skemmtilega vildi til að við rétt náðum bátnum sem fór frá Wellington 17:30 en ætlunin hafði verið að ná bátnum sem fór klukkan sjö. Óhætt er að segja að við áttum í erfiðleikum að halda okkur vakandi á bátnum en meðan þau fjögur spiluðu á spil náði ég að horfa á Rugby leik milli Auckland og Wellington (ég verð að segja að ég er dottin dáldið inn í þessa íþrótt).

Við komum til Picton um 21:00 og þá þurftu við að labba í um 45 mínútur áður en við komum að kofaleigunni þar sem við áttum pantað gistipláss. Kofinn var annsi skemmtilegur og voru allir sammála um að við hefðum gert góðan díl þar þótt að labbitúrinn hafi verið í það lengsta.

Dagur 2
Fólkið sem átti kofan var svo elskulegt að skutla okkur í miðbæ Picton þar sem við versluðum mat fyrir ferðina. Picton er lítill bær, svipaðar og Ísafjörður, þar sem aðal atvinnuvegurinn virðist vera landbúnaður, ferðamennska og skógarhögg. Maður hefði alveg eins getað verið heima á Íslandi því stemmningin í bænum minnti margt á íslenska dreifbýlið.

Þegar við komum að kayakleigunni var hún lokuð og er óhætt að segja að smá panic tilfinning hafi farið um okkur. En á hurðinni var gefið upp númer sem við hringdum í og voru eigendurnir snöggir að koma að gera þetta til fyrir okkur. Mjög fínt fólk svo ekki sé meira sagt og mæli ég eindregið með þessum stað, ef einhverjum dettur í hug að leigja sér kayak í Picton.

Eftir stutta kennslu og ábendingu hvert við ættum að stefna var lagt af stað í tveimur tveggja manna og einum einsmanna kayökum. Mikil stemmning var í okkur en þó kom fljótt í ljós að ferðin yrði aðeins strembnari fyrir undirritaðan heldur en hann bjóst við. Fyrsti dagurinn var þó stuttur og fólst aðallega í að kynnast aðstæðum á sundinu og komast í róðratakt. Veðrið var kannski alveg eins og best var kosið þennan dag og get ég alveg viðurkennt að ég var smá stressaður ef aðstæður yrðu þannig það sem eftir var ferðarinnar. Í fyrsta stoppinu okkar sáum við mikð af kræklingum og lá við að Franki og Nacho slefuðu það sem eftir var dagsins þegar þeir hugsuðu um alla kræklingana sem þeir týndu.

Fyrsti áningastaður var í Davies Bay, en það er lítil vík í norðanverðu djúpinu vestur af Picton. Við komum að landi á háfjöru og því þyrfti að bera bátana annsi langt áður en við gátum verið viss um að þeir myndu ekki fljóta í burtu um nóttina. Skipt var liði og settu Mathieu og Lisa upp tjaldið á meðan ég, Nacho og Frankie söfnuðum í eldinn. Fljótlega eftir að við höfðum náð að kveikja upp var komið myrkur og voru þreytti ferðalangar sem sátu nálægt eldinum á meðan kvöldmaturinn var borðaður.

Víkin var þó ekki eins fjarri mannabyggðum eins og við sáum fyrir okkur því umferðin þarna nálgaðist að vera eins og í Þórsmörk og var mikið hlegið að því. Sérstaklega þar sem við höfðum róið í 3 tíma áður en við tókum land á meðan fólk virtist bara vera að taka sér kvöldgöngu þangað.

Eftir að sólin var sest tókum við vel eftir að hér er ennþá "vetur" (ég er ennþá að sannfæra alla um að þetta eigi að heita "kalda tímabilið") því hitastigið var ekki mikið yfir frostmarki. Við létum það þó ekki hafa mikil áhrif á okkur og sötruðum bara heitt súkkulaði til að halda á okkur hita. Við entumst þó ekki lengi því ennþá sat í okkur einhver þreyta eftir að hafa vaknað snemma á laugardeginum sem og eftir róðurinn.

Dagur 3
Fyrsta nóttin var dáldið köld og óþægileg því eins og síðar kom í ljós höfðum ég og Mathieu lang minnsta plássið því við höfðum komið okkur fyrir fyrstir og þar sem við erum svo tillitssamir lágum við á hliðinni mesta alla nóttina og var grínast með það daginn eftir að við hefðum kúrt saman (e. spooned). Ég var farinn á fætur hálf átta og rölti ég um svæðið og skoðaði mig um. Frankie vaknaði líka fljótlega og við skelltum okkur í stutta gönguferð um svæðið.

Restin af liðuna vaknaði síðan upp úr 9 og var þá hafist handa við morgunverðin. Hann var áhugaverður en hann var mitt á milli að vera hafrasull og hafragrautur. Við höfðum með okkur haframjöl og hver um sig blandaði heitu vatni út í mjölið og bætti sykri og ávöxtum að vild. Þetta var bara hinn ágætasti morgunverður en hann gaf okkur alla vega nægjanlega orku til að róa allan daginn.

Lagt var af stað úr víkinni rétt um ellefu og var þá aðeins farið að blása en þó ekki mikið. Stoppað var littla stund í Kumototo Bay til að borða. En við vorum svo óheppin að engin sól skein í víkina og því var okkur ótrúlega kalt miðað við að sólin skein í heiði. Eftir að hafa bara enst í háfltíma eða svo var ákveðið að skella sér í bátana og koma sér að næsta náttstað. Á leiðinni sáum við nokkra seli liggja í klettunum sem og sjófugla sem létu sér fátt um finnast þessa furðufugla í gulu bátunum.

Ferðin gekk vel til að byrja með því við höfðum meðbyr nærri alla leiðinni, en þegar kom að því að sigla inn að náttstaðnum í Ruakaka Bay hafði vindurinn snúist og blés út víkina. Því tók það okkur óratíma að komast að landi. Þessi vík var þó öllu einangraðari en sú fyrsta því það lá ekki einu sinni göngustígur upp úr henni.

Þegar við vorum búin að tjalda og kveikja eldinn tókum við eftir wekas sem er fugl sem svipar mjög til hænu í útliti en þeir eru alfriðaðir þarna. Þessir fuglar eru búnir að komast upp á lagið með að éta frá ferðalöngum og því þurftum við að hafa okkur öll við að halda þeim í burtu. Þar sem myrkur var skollið á náðust þjófarnir ekki á mynd.

Kvöldmaturinn var annsi sérstakur en mjög sniðugur fyrir svona útilegur, sérstaklega ef eldur er kveiktur. Skornar voru niður kartöflur og beikon og þeim vafið inn í álpappír ásamt osti. Pökkunum var komið fyrir í eldinum og látið bakast þangað til að kartöflurnar voru orðnar full soðnar. Þegar rétturinn var tilbúin var sett yfir hann sýrður rjómi og hann borðaður með bestu lyst.

Í kringum varðeldin voru rifjaðar upp goðafræði nokkura landa og þurfti undirritaður meðal annars að fara yfir norrænu goðafræðina með dyggri hjálp frá Lisu. Hápunktur kvöldsins var þó Fílaleikurinn þar sem hver keppandi þurfti að velja sér dýr og herma eftir því þegar á hann var kallað. Ég ætla þó ekki að skýra hann betur en ef einhver kemur með á Búðir í ágúst á næsta ári þá verður hann kenndur þar.

Dagur 4
Eins og fyrri daginn vaknaði ég fyrir allar aldir en ákvað samt að ég myndi bara létta af mér og reyna síðan að sofna aftur. Þegar ég kom út sá ég þó hænsræsknið og ákvað ég því að ná í myndavélina. Ég held að hann hafi fundið á sér að ég ætlaði að taka mynd af honum því hann var fljótur að fela sig og sást ekki aftur. Veðrið hélt áfram að leika við okkur og var óhætt að segja að við vorum í góðu skapi þegar við héldum af stað.

Hádegismaturinn var snæddur við Arapawa Island á strönd sem var til sölu. Ég held að ef ég verð einvhern tíman ríkur þá gæti ég alveg hugsað mér að eignast eitt stykki sumarhús þarna. Eftir matinn tók þó við að koma okkur aftur suður yfir sundið og róa í vestur átt að Picton.

Það var smá bugur á okkur að vara þarna yfir því í fyrsta skipti þurftum við að hafa áhyggjur af ferjunni sem og miklum straumröst sem þar er. Ég og Nacho vorum fremstir í flokki á leiðinni og var mikil einbeiting í hópnum. Við þurftum að halda okkur saman því þéttari sem við vorum því fyrr sæju bátarnir okkur. Þegar fór að síga á seinni hlutan fannst mér ég sjá einhverjar öka öldur í fjarskanum. Ég og Nacho ræddum fram og til baka hvort þetta væri sker, höfrungar eða jafnvel háhyrningar. Við sögðum þó að líkurnar á að sjá höfrunga væru ekki miklar og því væri þetta örugglega bara sker.

En þegar við komum nær kom sannleikurinn í ljós. Þarna voru um 30 höfrungar í hóp sem kom á móti okkur. Það var ótrúlega gaman að sjá þá stökkva þarna um og stundum voru þeir bara um 50 cm frá okkur eða svo. Hefði ég ekki verið með myndavélina á fullu hefði ég reynt að teygja mig í þá svo nálægt voru þeir. Óhætt er að segja að þetta hafði mikil áhrif á okkur og vorum við með bros á vör alla leiðinna að síðasta náttstaðnum. Ef einhver þreyttist og hætti að brosa þurfti ekki annað en að segja höfrungur og þá var brosið komið á sinn stað.

Rétt eftir höfrungana sáum við letilegan sel sem var búin að taka yfir vík eina sem við ætluðum okkur að stoppa í. Við ákváðum þó að gefa Kobba frið þar sem hann lá svo makindalegur á steinum að við rérum töluvert lengra til að stoppa og tala um höfrungana.

Síðastu nóttina var tjaldað í ddd bay sem er rétt um 2 tíma frá Picton (auðvitað á Kayak). Tjaldstæðið leit þó ekki vel út frá sjónum því við þurftum að vaða í gegnum mikla drullu til að komast þangað. Þegar drullunni sleppti leit þó þetta þó mun betra út. Tjaldstæðið var staðsett í littlum dal með nokkrum sveitabæjum sem og sumarhúsum sem voru allt í kringum víkina.

Rétt eftir að við tjölduðum hittum við sígaunakonu, Heather, sem ferðast um í gamalli Bedford rútu sem er nýbúið að gera upp. Fyrir 9 árum seldi hún sveitabæin sem hún átti og keypti rútuna sem hún ferðast um á núna. 5 mánuði eyðir hún með sjálfri sér, tveimur hundum og ketti á ferðalagi um suðureyjuna en hina mánuðina ferðast hún með Sígaunamarkaðinum og sérhæfir hún sig í lófalestri og tarrotspilum.

Það er óhætt að segja að það hafi verið frekar heimspekilegar umræður við eldinn um kvöldið því auðvitað buðum við Heather að vera viðstödd. Þetta var viðkunnalegasta kona þótt að skoðanir hennar væru á öndverðum meiði miðað við mínar skoðanir. Hundarnir hennar vöktu líka mikla kátínu því þeir voru fljótir að finna það á sér að við værum til í að gefa þeim alla þá athygli sem þeir vildu.

Dagur 5
Síðasti dagurinn var tekin rólega frá upphafi. Við vöknuðum seint (þ.e. allir aðrir en ég því auðvitað gat ég ekki sleppt morguntúrnum mínum um sveitina í kring) en vorum þó komin aftur í bátana um hádegið. Við hlógum dáldið að því að vinkona okkar hún Heather hafði jafn mikin áhuga á að taka mynd af okkur eins og við af henni.

Mikill leikur var í okkur á leiðinni aftur til Picton og meðal annars var stundað Kayakblak þar sem við hentum á milli okkar forlátum blakbolta sem við fengum á 50 kr í Auckland daginn áður en við lögðum í hann.

Við komum loks til Picton um 2 leytið og tók þá við að taka upp úr kayökunum og pakka aftur í töskurnar okkar. Sem betur ver gátum við skellt okkur í sturtu á leigunni og var það ekki fyrr en við höfðum skolað skýtin af okkur að við fundum í rauninni hvað við vorum þreytt.

Eftir að við höfðum skilað af okkur kayökunum og áður en við tókum ferjuna aftur til Wellington stöldruðum við stutt í litlum garði þar sem við snæddum miðdegisverð. Óhætt er að segja að endurnar í garðinum væru vanar því að fá athgyli því við vorum ekki fyrr búin að taka upp matinn fyrr en við vorum umkringd um 3 andarpörum sem öll vildu fá bita af kökunni. Endurnar voru þó ágengari en okkur þurfa þykir og því vorum við meira í því að reka þær í burtu en að gefa þeim að borða.

Við vorum ekki komin fyrr en að verða 9 á hostelið sem við höfðum bókað í Wellington. Ekkert gas var í borginni og því höfðum við úr litlu að velja hvað kvöldmat varðar. En við náðum samt að kaupa okkur gómsætan Kebab á Tyrkneskum veitingastað sem við fundum í miðborginni. Við endumst þó ekki lengi í bænum því við vorum komin aftur upp á herbergi fyrir miðnætti og lögst á mjúkar dýnurnar sem við töldum þó að væru of góðar fyrir okkur.


Dagur 6
Eftir stutt labb um Wellington í leit að stað til að snæða morgunverð var lagt af stað aftur Auckland. Óhætt er að segja að mun meiri borgarbragur er á Wellington heldur en Auckland og því er ég staðráðin í því að heimsækja borginna við tækifæri áður en dvöl minni á Nýja Sjálandi lýkur.

Við vorum komin aftur til Auckland að verð 9 og áður en leiðir skilldu kíktum við á japanskan veitingastað til að seðja hungrið. Þegar við loks komum aftur upp á Railway var lagst í bólið og var ég mjög fljótur að sofna svo ekki sé meira sagt.