10.12.04

Annar jóladiskur

Fann annan skemmtilegan jóladisk. Music From The O.C.: Mix 3 -- Have a Very Merry Chrismukkah. Reyndar er eitt lag það sama og á Cool Cool Christmas og nokkur sem hafa komið út á öðrum diskum. Þetta er reyndar bara 9 laga diskur en þarna er lag með Eels, Christmas is Going to The Dogs (úr myndinni Grinch) sem er algjör snilld, lagið Rock of Ages með Ben Kweller er líka gott. Þarna er cover af Last Christmas með Jimmy Eat World og cover af Merry Xmas Everybody með Rooney.
Þegar maður finnur svona hluti þá fer maður að hugsa afhverju er þetta ekki spilað í útvarpinu í staðinn fyrir lögin sem maður heyrir á hverju ári. Fór að spá í þetta flest þessara laga sem maður heyrir í útvarpinu hafa verið í spilun frá því að maður man eftir sér. Af hverju ekki að breyta til svona einu sinni og spila eitthvað nýtt. Þetta er kannski ástæðan fyrir jólaleiðanum sem margir finna fyrir. Eða með orðum Pablo Francisco (paraphrased): "It's the same crap you have listened to over and over again."

8.12.04

Önnur góð mynd

Shaun of the dead. Af einhverjum ill skiljanlegum ástæðum þá fórum við félagarnir ekki á þessa mynd í bíó. Horfðum á hana í gær og hlóum okkur máttlausa. Breskur húmor eins og hann gerist bestur.

7.12.04

Kvikmyndir

Merkilegt hvað við hér á Íslandi fáum allan skít sem gerður er í Hollywood en það er stundum eins og þeim detti aldrei í hug að sýna áhugaverðar myndir nema einstaka sinnum á kvikmyndhátíðum. Rakst á einn gullmola um daginn Garden State. Zach Braff, sá sem leikur aðalhlutverkið í Scrubs þáttunum, skrifar handritið, leikstýrir og leikur aðalhlutverkið. Þessi hefur ekki komið í bíó, ekki á vídeó og virðist ekki vera á leiðinni að vera frumsýnd. Fínasta mynd, þegar maður komst loksins yfir hana. Þetta er mynd um charactera en ekki stanslausir eltingaleikir og tæknibrellur sem er alltaf þægilegt að horfa á inn á milli. Soundtrackið í myndinni er með þeim betri sem hefur komið út í langan tíma. Ráðlegg öllum að sjá hana (og hlusta á tónlistina).

6.12.04

Óáhugaverð vinna

Nú er ég búin að komast að því að gerð skilagreina er ekki skemmtileg. Það væri kannski allt í lagi að þurfa að gera eina slíka en tvær er allt of mikið. Að þurfa að rýna í leiðinlegar staðdreyndir um verk sem maður fylgdist með fyrr um sumarið er ekki eitthvað sem maður er til í að gera mikið af. Það sem er líka leiðinlegt það er þegar maður þarf að berja saman einhvern texta. Mér finnst best að vinna bara með staðreyndir og er það þess vegna sem mér líkar svona vel í mælingunum. Ég held ég eigi bara dáldið erfitt með að vera diplómatískur og ópersónulegur í þessu. Fæ stundum fiðring í puttana að bæta einhverri kaldhæðni í þetta allt saman.

5.12.04

Ég vildi stundum að ég ætti Apple tölvu

Það er merkilegt hvað windows er skrýtið stýrikerfi. Hafði fært til nokkrar skrár inn á harðadisknum. En þegar ég ætlaði að opna skrárnar tilkynnti explorer mér að ég hefði ekki heimild til að nota skrárnar. Þá prófaði ég allt sem mér datt í hug. Lét scandisk keyra á diskinn, keyrði Ace Utilities og hreinsaði registry-ið. Leitaði loks á netinu og sá að þetta tengdist oft skilgreiningu á notenda en þar sem ég er eini notandinn á þessa tölvu fannst mér þetta ekki eiga við. Ákvað samt að prófa þetta og lét möppuna vera aðgengilega á innanhúsnetinu og vit menn ég gat gert allt sem ég vildi við skrárnar.
Þar sem mér fannst þetta ekki vera nægjanlega góð lagfæringi hélt ég áfram að fikta. Af einhverjum ástæðum endurskýrði ég möppuna og viti menn allt í einu fór allt að virka eins og ekkert hefði í skorist. Það er akkúrat á svona stundum sem ég fer á nostalgíutripp og hugsa um þá gömlu góðu tíma þegar ég átti Apple.

3.12.04

Jahúúúú

Algjör snilld. Eftir mikið puð og óendanlega mikla leit tókst mér hið ómögulega. Ná í allan diskinn sem ég var að leita að í gær. (Lennti reyndar í ótrúlegum hremmingum með hann inn á tölvunni minni áðan en það er önnur saga.) Diskurinn heitir It's a Cool Cool Christmas og á honum spila hljómsveitir eins og Calexico, Giant Sand, Mogway, Belle and Sebastian, The Dandy Warhols, Eels og fleiri. Þetta er algjör snilldar diskur, mæli með honum.

2.12.04

Alltaf er þetta svona...

Afhverju er það þannig að þegar maður finnur eitthvað sem manni langar í þá er nærri ómögulegt að verða sér út um það. Rakst á nokkur góð lög af jólaplötunni It's A Cool Cool Christmas og þegar ég sá hvaða listamenn voru einnig á henni ákvað ég að reyna að verða mér út um plötuna. Það kemur síðan í ljós að diskurinn kom út árið 2000 gefin út til styrktar einhverju góðu málefni. Eina eintakið sem ég fann var notað eintak á amazon.co.uk og þar kostaði hann 50 pund. Eftir mikla leit þá ákvað ég að þetta væri eina leiðin en þá kemur frá amazon að þeir sendi ekki þetta eintak til Íslands. Þá verður maður bara að fara út í ólöglegar leiðir til að verða sér út um hann...

1.12.04

Staður og stund

Verð að segja að ég hafi lennt í furðulegri "vinnulífsreynslu" í gær. Var spurður hvort ég sæi mér fært að vinna lengur við mælingar. Auðvitað gaf ég jákvætt svar við því, þá fékk ég að vita það að við þyrftum að mæta um 11 um kvöldið á skrifstofuna því við þyrftum að vera komnir upp í Hvalfjarðargöng um miðnætti. Verkið fólst nefnilega í því að mæla snið á 8 stöðum í göngunum til að sjá hvernig malbikið hefur eyðst. Verð að segja eins og er að þetta hafi verið smá skrýtið að standa inn í göngunum meðan flutningabílar keyrðu framhjá. Segið svo að maður kynnist ekki einvherju nýju á hverjum degi.