30.4.07

Lok Ástralíu og skólinn

Afsakið hvað þessi síðasta kafli í ferðasögunni hefur verið lengi að birtast. Fyrir utan öll verkefnin sem eru að hrannast upp í skólanum þá hef ég bara verið einstaklega latur síðustu viku.

Til að svara spurningu sem kom eftir síðasta blogg, nei ég hef enn ekki stigið síðasta skrefið yfir á myrku hliðina með því að drekka einn kaldan. Ég læt það eftir til nískra Þjóðverja og Írskra drykkjurúta. En síðasta kvöldið með Fraser hópnum var mjög skemmtilegt þótt það hafi endað snemma. Einhvern vegin var engin í stuði til að vera lengi úti og flestir þurftu að vakna snemma til að komast í rútuna og því voru allir komnir heim rétt um 11.

Rútuferðin til Brisbane var jafn áhugaverð og horfa á málningu þorna. Ég var þó í betri málum en Jörn þar sem minn MP3 spilari hefur mun meiri rafhlöðuendingu. Ég ætla þó að vona að ég þurfi aldrei aftur að vera jafn lengi í rútu og þessi þrjú skipti. Það er skömminni skárra að vera í flugvél þar þú sem hefur alla vega aðgang að kvikmyndum.

Þegar við komum til Brisbane fundum við okkur ágætis hostel nálægt brautarstöðinni og fórum síðan í gönguferð um bæinn. Brisbane er svo sem ágætis borg en ekkert ótrúlega sláandi. Kannski að maður gæti eytt meiri tíma þarna ef ferðafélagi manns væri tilbúin að borga 1000 kr til að fara á Science Museum. Ég reyndi að sannfæra hann um skemmtanagildi þess en án árangurs.

Á föstudeginum náði ég samt að sannfæra hann um ágæti þess að kíkja á síðustu hvílu Steve Irwins (Crikey) og lá því leiðin norður á bóginn aftur að Australian Zoo. Það er ótrúlegt hve mikið staðurinn lifir enn fyrir Steve. Garðurinn er mjög skemmtilegur, getur meðal annars klappað og fóðrað kengúrur sem og haldið á koala birni og margt fleira, en þó mjög commercial. Starfsmennirnir nefna Steve stanslaust á nafn og vísa í þá hugsjón sem hann stóð fyrir, það væri svo sem í lagi ef að hver einasta setning sem þú heyrir í 10 mínútur er ekki Steve þetta og Steve hitt. Ég ætla þó ekki að segja meira um þennan garð heldur er bara best fyrir ykkur að kíkja á myndirnar (ætla að reyna að setja þær inn seinna í dag).

Eftir að við komum aftur til Brisbane röltum við niður í miðbæ í leit að stað til að horfa á Rugby leik sem var í gangi í borginni milli Ástralíu og Nýja Sjálands. Þetta var leikur í League en ekki Union þar sem All Blacks spila. League er lélegri útgáfa af Rugby og ekki eins skemmtilegur. Kannski út af því að Ástralía er næstum því eina landið í heiminum sem spilar þessa útgáfu af einhverju viti. Þarf ekki að segja frá því að Nýja Sjáland var slátrað af kengúrunum og var hreint út sagt hörmung að horfa upp á leikinn.

Laugardagurinn hófst með því að fljúga til Sydney. Þar sem við höfðum skoðað okkar um allt svæðið síðast var lítill áhugi að gera eitthvað mikið. Reyndar fengum við að sjá Sydney í sólskini núna en áhguinn var samt sem áður lítill að rölta um sömu staðina og taka myndir. Enduðum því bara í kvikmyndahúsi og sáum hina mögnuðu 300. Snilldar mynd sem ég ætla að sjá aftur við tækifæri. Um kvöldið var ætlunin að kíkja á næturlífið en þar sem við höfðum engan til að segja okkur hvar besta skemmtunin væri enduðum við bara snemma aftur upp á hostelinu og hvíldum okkur fyrir heimferðin.

Sunnudagurinn fór algjörlega í að koma okkur út á flugvöll og auðvitað að fljúga heim til Nýja Sjálands eftir mjög svo skemmtilega ferð til Kengúrulands. Það var mjög gott að koma aftur heim og hvað þá að kveikja á tölvunni og geta aftur farið að nota íslenska stafi (lesist kveikja á Warcraft og spila allt kvöldið).

Síðasta vika hefur síðan að mestu bara farið í að koma sér aftur í skólagírinn þótt það hafi reynst annsi erfitt. En nú eru bara rétt um 5 vikur þangað til prófin byrja og því getur maður farið að stressa sig aðeins upp. Reyndar get ég líka sagt að þetta þýðir að það eru bara rétt um 9 vikur þangað til ég kem heim og get ég ekki annað sagt að það sé komin spenningur í mann.

P.S. Myndirnar eru komnar inn.

1 Comments:

At 10:09 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég hafði alltaf fulla trú á að þú myndir ekki falla í freistni og sötra einn kaldan.

Rosalega fer að styttast í að þú komir heim vorum einmitt að tala um hornstranda ferðina hjá mömmu og pabba. Það er allt í einu að koma sumar.

 

Skrifa ummæli

<< Home