13.8.05

Loksin kominn heim

Er núna búinn að vera 3 daga heima og er ekki búinn að gera neitt. Ég held ég eigi það nú alveg skilið eftir 17 daga upp á fjöllum án þess að fá einu sinni helgarfrí. Dagurinn í dag á bara að fara í að horfa á fótbolta hef þó á tilfinnunginni að ég verði rekinn í burtu frá stofunni þegar nær dregur kvöldi. Sérstaklega þar sem stefnan er að vera undir sæng allan tímann.

Fór einmitt í gær að skipta um afruglara svo ég gæti gerst áskrifandi af enska boltanum. Var annsi mikið að gera í verslun símans í Ármúlanum en eins og alltaf eru allir að gera svona hluti á síðustu stundu. Þurfti reyndar fyrst að sannfæra mömmu um að borga aðeins meira fyrir áskriftina sína þar sem eina leiðin til að fá BBCPrime og norrænu stöðvarnar er að kaupa allan pakkan. Held reyndar að mamma sé aðeins sáttari við þetta eftir að hún tók eftir að gæðin eru betri í nýja ruglaranum.

Mætti reyndar í smá stund í vinnuna á fimmtudaginn svona rétt til að stilla GPS tækin fyrir Indriða. Hélt smá námskeið fyrir nýja fólkið á mælingadeildinni í leiðinni. Ég hef aldrei verið samt jafn truflaður eins og þennan dag. Ætlaði að leggja mig í klukkutíma þar sem ég var frekar þreyttur en á aðeins 10 mínútum var hringt í mig 4 sinnum og lúrinn algjörlega eyðilagður.

Þetta virðist vera eitthvað þema þessa daganna þar sem svefninn var eyðilagður hjá mér í morgun. Reyndar er bara hægt að kenna hundinum um það. Týra var nefnilega kennt að opna hurðir þegar hann var lítill hvolpur. Hann sefur yfirleitt inn í hjá mér, heyrir síðan í pabba á morgnanna og opnar þá hurðina. Yfirleitt er þetta ekkert vandamál en á laugardags- og sunnudagsmorgnum þegar mamma og pabbi fara ekki strax út þá heyri ég öll samtölin þeirra og auðvitað get ég ekkert sofið þá.

Grilluðum saman strákarni í gær, svona til að kveðja Bjössa sem er að fara til Danmerkur núna eftir helgina. Var mjög gaman hjá okkur sérstaklega að rifja upp gamlar sögur frá því á menntaskólaárunum. Það var spjallað alveg fram á rauða nótt og ég held að við höfum ekki hlegið svona mikið í langan tíma. Við verðum bara að endurtaka þetta þegar strákarnir koma aftur heim.

8.8.05

Út um allt á mínum fjallabíl....

Síðustu dagar eru búnir að vera áhugaverðir, ég hef alla vega aldrei keyrt jafn mikið á fjallslóðum eða eins og ég vill kalla það dekkjaförum. Margir af þessum slóðum eru ekkert annað en dekkjaför eftir síðasta bíl sem keyrði þarna. En við erum með GPS tæki til að leiðbeina okkur að punktunum þannig að hvergi hefur verið keyrt þar sem ekki hefur verið keyrt áður. Það er líka ótrúlegt hvað svæðið hérna suðvestan við Kárahnjúka er mikil eyðimörk. Þú keyrir um þarna og það er ekkert nema steinar og sandur hvert sem þú lítur. Síðan inn á milli koma í ljós lítil gil/dalir þar sem á rennur og allt er grænt og jafnvel bleikt af blómum.

Mótmælendur eru skrýtnar skepnur. Það er í rauninni ótrúlegt en ég held að ég sé orðin mun harðari stuðningsmaður stíflunnar eftir þessi mótmæli frekar en fyrir. Öll þessi heimskupör og vitleysugangur er svo ótrúlegur að það er enginn vegur að taka þau alvarlega. Í fyrsta lagi hefur meirhluti þeirra ekki hundsvit á því hverju þau eru að mótmæla. Þau mótmæla stóriðju en keyra um á nýlegum bílum og tjalda flottum polyester tjöldum. Þau vita ekkert um svæðið og nærri allir útlendingarnir voru einnig að mótmæla G8 fundinum fyrr í sumar.

Steinin tók þó út í gær. Það var haldin útimessa í Laugavalladal, sem er í um 20 mínútna akstri frá búðum Landsvirkjunar. Mótmælendurnir mættu í með lögregluna á hælunum, sem var bara fylgjast með að þeir færu örugglega ekki inn á vinnusvæðið. Áður en fólk vissi af höfðu þeir klætt sig úr öllum fötunum og hlupu um svæðið. Það var ákveðið á staðnum að þetta væri skrýtnasta messa í heimi þar sem um 75% mættra voru annaðhvort löggur eða naktir mótmælendur.

6.8.05

Afmæli og annað slíkt

Búið að vera mikil keyrsla á manni síðustu daga. Markus og Katrín mættu á miðvikudaginn og ég fór niður á flugvöll til að ná í einn af bílunum sem við notum í mælingarnar. Kom síðan aftur uppeftir og sýndi Markusi svæðið og við leituðum af nokkrum punktum sem við þurfum að stilla upp í næstu daga.

Núna er maður ekkert slor keyrir um á nýlegum Nissan Patrol með leðursætum. Reyndar finnst mér frekar óþægilegt að keyra hann þar sem skyggnið fram yfir húddið er hræðilegt. Tókst líka einmitt að keyra upp á stein af þeim sökum. Höfðum stoppað til að hugsa okkur um síðan tók ég af stað og þá heyrðust skruðningar og læti þegar bíllinn skreið upp á steininn. Þurftum að fá stóra vinnuvél til að redda honum af steininum.*

Statísku mælingarnar hófust síðan af alvöru á fimmtudaginn en þá byrjuðum við á því að mæla netið sem er í kringum aðal stífluna. Þurftum reyndar að funda aðeins með Ítölunum og sýna þeim puntkanna svo það væri öruggt að þeir væru ekkert að fara næstu 50 árin. Höfum síðan þá verið að færa okkur yfir í stærri og stærri net og endum á þriðjudaginn að setja upp allt að 50 km í burtu frá svæðinu og láta tækin ganga í sólarhring, eða þangað til rafhlaðan tæmist.

Kom upp atvik í gær sem sýnir í rauninni hvað fullkominn tæki geta gert við mann. Þegar við vorum að leita að puntki sem við þurftum að stilla upp á í dag sáum við að það hafði einhver stillt upp yfir punktinum. Þetta væri svo sem ekkert frásögufæranda nema að þessi punktur er alveg nýr og hefur aldrei verið mældur. Það kom síðan í ljós að verktakinn sem átti tækinn hafði tekið feil á þessum punkti fyrir annan sem er þarna rétt hjá. Tækið var búið að vera kvarta allan tíman að leiðréttu hnitin pössuðu ekki við mældu hnitin og sem betur fer var hann ekkert búin að nota punktinn til mælinga út af því.

Samkvæmt því sem mér var kennt áttu alltaf að tjékka þig af í nálægt fastmerki bara til að vera 100 % viss um að þú sért að gera rétt. Þetta var náttúrulega gert af kostgæfni í gamla daga þegar miklu meira álag var á heilastöðvarnar en núna þar sem tækið hugsar alveg fyrir þig hafa menn ekkert fyrir því að tjékka sig af. Þetta getur einmitt leitt til svona mistaka, sum tæki vara þig ekki við svona hlutum og það eru til nokkur tilvik í kringum landið þar sem tvö fastmerki eru frekar nálægt hvor öðrum.

Var frekar fúll í gærkvöldi. Hér inn á skrifstofunni er settur upp matseðill fyrir vikuna. Í gær var á honum tacos. Það voru fleiri en ég sem voru búnir að hlakka til en seinni partinn fréttist að það verði kjúklingur í staðinn. Ég held að allir ættu að koma hérna og bragða kjúklinginn því þá færðu að vita hvernig ekki á að elda kjúkling. Náði að klára helmingin af einni bringu áður en allt vatn í líkamanum mínum kláraðist, þar sem hann var svo þurr.

Er farinn að telja daganna þangað til ég kemst heim. Sérstaklega eftir að ég heyrði að pabbi væri alveg við það að klára að setja upp allt í sambandið við nýja baðkarið. Núna er planið að láta foreldranna renna í karið þegar ég lendi svo ég geti hoppað ofaní um leið og ég labba inn úr dyrunum. Þetta er reyndar í það mesta sem maður þolir við hérna upp frá. Það er reyndar mjög fínt fólk hérna, en allir dagar eru nákvæmlega eins og enginn leið að breyta út af.

Kárahnjúkadagur:
  1. Vakna klukkan 7
  2. Vinna til 12
  3. Matur
  4. Vinna til 19
  5. Matur
  6. Leika sér í tölvunni/horfa á kvikmynd
  7. Sofna á miðnætti
Svona er þetta búið að vera síðan ég kom upp eftir og svona verður þetta þangað til ég kem heim. Ætla reyndar að taka frí þegar ég kem í bæinn og þá ætti ég að hafa tíma til að setja upp tölvukerfið aftur svo mamma geti sofið rólega það sem eftir er.

* Engir Patrol jeppar sködduðust við gerð þessa bloggs.

2.8.05

Verslunarmannahelgin

Þetta er önnur verslunarmannahelgin í röð sem ég þarf að eyða hérna upp á Hnjúkum. Að mörgu leiti er þetta ágætt, losnar við umferðina stressið og almennt vesen í kringum ferðalög. En það er eitt sem stendur þó upp úr manni líður eins og maður sé að missa af einhverju, sérstaklega þegar flestir í fjölskyldunni fara í útilega og hafa gaman að.

Hérna gerði maður mest lítið nema að vinna og reyna að ná úr sér flensunni sem maður krækti sér í síðustu viku. Með hjálp góðra lyfja er maður orðinn töluvert skárri þó að enn sitji eftir smá stíflað nef og hósti. Hann hefur þó farið ört minnkandi og ætla ég að hann verði alveg farinn á næstu dögum.

Nú er ég búinn að vera hérna í rúma viku og ennþá er rúm vika eftir. Ég held að ég verði algjörlega komin með ógeð á þessum stað eftir þann tíma. Reyndar er fullt af skemmtilegu fólki að koma í dag svona rétt til að lina þjáningarnar. Á morgun hætti ég þó í þessum venjubundnu mælingum hérna upp frá og fer yfir í statískar GPS mælingar. Það þýðir bara eitt mikill akstur og eintóm bið. Sem sagt:
1. Fyrst er keyrt að punktinum, tæki stillt upp.
2. Keyrt að næsta punkti, tæki stillt upp.
3. Ferli endurtekið þangað til allir punktar eru með tækjum.
4. Beðið í nokkra klukkutíma.
5. Farið að fyrsta tæki og það tekið niður.
6. Farið að næsta tæki og það tekið niður.
7. Endurtekið þangað til öll tæki eru komin í hús.
Getur verið ágætt ef maður er með einhverjum skemmtilegum en núna verðum við þrjú á þrem mismunandi bílum. Þannig að ég mun taka tölvuna mína með mér og reyna að gera eitthvað uppbyggilegt á meðan ég bíð.

Enn og aftur eru þessir mótmælendur að gera eitthvað sem undirstrikar heimsku þeirra. Í gær ákváðu þeir að klifra í grjótvörninni sem er norðan á stíflunni (þeim megin sem vatnið verður ekki). Grjótvörnin er frekar brött og lausröðuð með steinum allt niður í 100 kg. Þetta þýðir bara eitt, steinar geta losnað þegar 100 kg maður reynir að grípa í þá og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.