29.7.05

Veikindi

Ef ykkur finnst leiðinlegt að vera veikur þá ættu þið að prófa að vera veikur upp á fjöllum. Var eitthvað búinn að finna fyrir óþægindum á miðvikudagsmorgunin en hugsaði ekki mikið um það þá. Nóg var að gera sérstaklega lá Jon Parry, aðalkallinn á svæðinu, á mér að klára að mæla snið inn í Adit 2.
Að hanga í göngum með kvef er ekki það sniðugasta sem maður gerir. Loftið mettað af raka og ryki. Eina leiðin til að vinna þarna inni er í vöðlum og þykkri úlpu, og þar sem hitinn inni er um 15°C þá svitnar maður rosalega. Auðvitað byrjaði ég að finna þegar leið á daginn að ég væri slappur. Síðan þá hefur heilsunni hrakað stöðugt og það endaði með því að ég fór til læknis í hádeginu. Hann gaf mér fúkkalyf og sagði mér að leggja mig að minnsta kosti í 2 tíma eftir hádegi, sem ég gerði.
Núna er ég þó komin út á skrifstofu aftur því ég nenni ekki að hanga inni í herberginu mínu í allan dag. Ætla þó ekki að fara út að mæla heldur reyna að koma frá mér þeim verkefnum sem liggja fyrir hérna inni.

27.7.05

Frændur og lögregluríki

Fór og hitti Ingva Þór í gær. Fékk að hætta snemma í vinnuna og keyrði síðan niður á Egilstaði þar sem við fengum okkur pizzu og horfðum á Kaunas-Liverpool. Það var mjög gaman að hitta hann og var mikið spjallað um fortíð, nútíð og framtíð. Vorum reyndar báðir mjög þreyttir þannig að síðasta partinn voru við eiginlega hálf sofandi fyrir framan sjónvarpið. Núna eru það eiginlega bara brúðkaup sem maður hittir frændurnar tvo í því næsta skipti sem við hittumst verður 27.ágúst í brúðkaupinu hjá systu.
Hérna upp á fjöllum er varla þverfótað fyrir lögreglumönnum (m.a. pabba hans Bjössa). Eftir að mótmælendurnir fóru að grípa til ofbeldis og að ósk Impregilo og Landsvirkjunar eru komnir hérna yfir 10 lögreglumenn. Það liggur við að það séu fleiri löggur en eftirlitsmenn hérna. Er frekar skondið að fara í mat því í fyrsta skipti síðan ég byrjaði að koma hérna þarf maður að bíða í langri röð eftir einhverju í gogginn.
Verð að segja eitt að lokum, þessi fjölgun lögreglumanna er álíka fáránleg og mótmælin í heild sinni. Þetta er orðið bara einn allsherjar farsi og ég tala nú ekki um fréttaflutninginn af þessu. Fyrir okkur starfsmennina hérna er þetta hin ágæta skemmtun og ekki líður á löngu áður en einhver opnar veðbanka fyrir hvað muni gerast á morgunn.

26.7.05

Fjör á fjöllum

Loksins þegar eitthvað skemmtilegt gerist að nóttu til hérna þá er maður ekki á næturvakt. Ég veit að margir eru ekki sammála mér en mikið svakalega eru þessir mótmælendur vitlausir. Að mótmæla virkjunarframkvæmdunum núna og fara fram á það að þær verði stövaðar er eins og biðja Hjálparsveit Skáta að setja saman alla flugeldana og hætta þegar þeir eru í miðri flugeldasýningu. Jarðraskið er þegar orðið það mikið að það er ekkert aftur snúið og halda öðru fram er vitleysisgangur.
Í nótt komust mótmælendurnir inn á svæðið og ollu skemmdum á ýmsum tækjum Impregilo. Þegar löggan kom á svæðið flúðu þeir og földu sig í óbyggðunum í kring. En löggan beið bara eftir þeim þegar þeir komu til baka og talaði duglega við þá. Báðu um passa og vegabréfaáritanir svona aðeins til að hræða þá og mætti síðan með fíkniefnahund í búðirnar þeirra. Þar fundu þeir tæki og efni til notkunar og manneskjan brast bara í grát þegar þeir ýttu á eftir henni.
Fólk hérna í búðunum er almennt sammála um það að mótmælendurnir séu almennt ekki mjög umhugað um náttúruna heldur séu meira að þessu vegna athyglisþarfar. Það eru mun fleiri útlendingar heldur en Íslendingar í mótmælendabúðunum og flestir af þeim voru á mótmælunum gegn G8 þjóðunum í Skotlandi um daginn.
Að mínu mati eru þessi mótmæli "too little too late" og mótmælendur ættu frekar að einbeita sér að einhverju þarfara en þessari vitleysu.

25.7.05

Kárahnjúkar

Í júlí er skammt stórra högga á milli hjá mér. Varla búinn að koma sér fyrir eða skoða íbúðir þá er maður rifinn í burtu og sendur upp á fjöll. Núna er ég komin upp á Kárahnjúka til að leysa mælingamannin af á meðan hann er í fríi. Auðvitað kemur maður hérna í mestu flóðunum en ég á ekki von á því að ég þyrfi að fylgjast eins grant með þessu núna eins og ég þurfti í fyrra.
Ætlunin er að reyna að hitta á frændurnar niðri á Seyðisfirði á morgun eða miðvikudaginn. En á fimmtudaginn eru þeir að fara í burtu, Ingvi í Ásbyrgi og Ómar til eyja. Náði ekki að hitta á þá síðasta sumar en núna verður þetta vonandi ekki eins asnalegt.
Veðrið er ekki eins gott og það var í Kosovo, en fyrir 600 m yfir sjávarmáli og norður í ballarhafi er þetta ágætt. Um 15°C, skýjað og lítill vindur. Var reyndar að vonast eftir riginungu en mér virðist ekki verða að ósk minni, alla vega þessa vikunna.

21.7.05

Heima er best

Ferðin heim byrjaði ekki gæfulega. Þar sem svona mælingaferð krefst mikið af dóti og mikið af dóti þýðir fullt af þungum hlutum var nauðsynlegt að borga yfirvigt. Í fyrstu ætluðu afgreiðslustúlkurnar ekki að trúa því að við værum bara tveir með 14 hluti og 150 kg. Síðan héldu þær að við vissum ekki að við þyrftum að borga fyrir alla yfirvigtina. Þegar við fórum og borguðum fyrir hana þá vorum við frekar hissa á því hve lág hún var. Við tókum reyndar eftir að á kvittuninni stóð aðeins Pristina - Kaupmannahöfn en við spurðum gjaldkeran og hann sagði að við værum góðir alla leið heim.
Við fórum síðan beint inn í flugstöðinna, þótt að enn væri einn og hálfur tími í boarding. Hugsuðum okkur gott til glóðarinnar þar sem við vorum á Business Class og ætluðum að nýta okkur loungið sem maður fær aðgang að. Það var lokað og öll sæti upptekinn í byggingunni svo við þurftum að standa allan tímann.
Flugvélin var lítil og eina sem skyldi að business og coach var að miðju sætið var frátekið í business. Reyndar virtist vera aðeins betra pláss fyrir fæturnar. Eins og alltaf var maturinn hræðilegur fyrir utan sítrónufrauðið. Ég hressti aðeins upp á skap flugfreyjunnar þegar ég bað um ábót því hún hló mikið af því.
Þar sem flugvélinni okkar seinkaði aðeins í Pristína fengum við aðeins 20 min að fara fara á milli flugvéla. Flugvélin til Köben seinkaði aðeins og þegar við heyrðum að það væri út af farangri farþega í tengiflugi þá gátum við ekki annað en hlegið. Þessi flugvél var svipuð og hin fyrri en maturinn var ennþá hræðilegri.
Í Kaupmannahöfn hófust leiðindin af alvöru. Ég notaði tíman vel og keypti Iddala skálar fyrir mömmu á meðan ætlaði Jón að slappa af í VIP lounginu. Þegar þar var komið var honum ekki hleypt inn þvi samkvæmt kvittuninni átti hann eftir að borga yfirvigtina til Keflavíkur. Hófst þá mikil hlaup hjá honum, ég slapp þar sem mér var ekki hleypt til baka í gegnum tollinn þar sem ég var með duty free varning. Á endanum þurfti hann að borga 70.000 kr í viðbót í yfirvigt og við fengum ekki nema um 20 mín í VIP salnum.
Flugleiðavélin var ekkert að hrópa húrra yfir en fyrir mig skipti það litlu máli þar sem las alla leiðina heim. Reyndar kláraði ég fjórar bækur í ferðinni. Tvær á leiðinni út og tvær á leiðinni heim. Tvær af þeim ætla ég að mæla með fyrir alla. American Gods eftir Neil Gaiman, snilldar bók sérstaklega fyrir þá sem hafa gaman af goðsögnum. Hin er Princess Bride, stytt af William Goldman. Ef þið hafið séð myndina þá mæli ég hiklaust með bókinni.
Núna er ég loksins komin heim ennþá á Kosovo tíma sem þýddi að ég svaf aðeins fjóra tíma í nótt áður en ég glaðvaknaði klukkan 6 í morgun. Hef reyndar notað tíman vel og er búin að laga netið svo þetta hús er komið í samband aftur eftir 5 daga þögn. Ég veit að ég verð ekki skemmtilegur í dag en planið er samt að fara í vinnuna í smá tíma áður en ég skríð heim aftur, sit fyrir framan tölvuna og skoða íbúðir á milli þess að ég spila smá WoW til að lina fráhvarfseinkennin.

20.7.05

Loksins, loksins og viðhafnaviðbúnaður

Þetta eru búnir að vera erfiðir dagar en í morgun tók ég nokkur dansspor þegar Jón mældi síðasta punktinn á flugbrautinni. Í gær tók Jón við í labbinu og var það ágætis breyting að sitja við tækið og ýta á rétta takka. Blerim náði sér í stól á meðan ég sat ofan á heybagga á meðan spjölluðum við um heima og geima á meðan Jón þjáðist í sólinni.
Í gær unnum við alveg þangað til að ég var hættur að greina Jón í myrkrinu en þá áttum við samt ennþá um 300 m eftir af flugbrautinni. Við vorum síðan mættir klukkan 7 í morgun til að klára þetta og klukkan 9 tók ég nokkur dansspor á miðri flugbrautinni til að halda upp á það að þetta væri loksins búið. Núna eigum við bara eftir að pakka áður en lagt er í 3 flugaheimferð.

Núna er allur flugvöllurinn í viðbragsstöðu því Solana er að koma í heimsókn til Kosovo. Hér eru hermenn út um allt og meðal annars einhver ítölsk herdeild í viðhafnarbúningum. (Þeir eru með Týrólahatt.) Hér eru þyrlur af öllum stærðum og gerðum og ýmsar herflugvélar eru að lenda. Og nú rétt í þessu var Boeing þota Solana að lenda. Þetta er frekar fyndið að vera svona í hringiðunni og sjá allt panic-ið á bak við þetta.

Eitt svona að lokum, ég er búinn að finna út úr því hvernig íslenskan landsliðið í fótbolta á að verjast á Laugardalsvellinum. Notum bara aðferð sem þeir eru að þróa hérna í Kosovo. Setjum markið okkar í felubúning.

Nú kveð ég hérna frá Kosovo en öllum því það er komin tími á að fara heim og skella sér í sturtu og pakka síðustu fatalörfunum niður. Á nú samt von á því að þetta sé ekki í síðasta skiptið sem ég verð hérna því nauðsynlegt er að koma hérna aftur í ágúst til að klára. Hvort ég fari eða ekki fer allt eftir því hvenær skólinn byrjar.

19.7.05

Meira af hita, rangar skótegundir og Smileys

Ég held að gærdagurinn hafi slegið öll met. Hitinn var svo rosalegur að á tímabili lá við að ég myndi lognast út af á miðri flugbrautinni. Þegar mesti hitinn var vorum við akkúrat að mæla upp aðalflugbrautina og var því ekkert hægt að hlaupa í burtu til að ná í eitthvað að drekka. Sem betur fer gat Blerim kallað á vatnsbera því ég átti ekki mikið eftir þegar þeir komu. Kláraði hálfan líter á innan við mínútu. Ætla að muna eftir því í dag að vera með vatnsflösku með mér.

Fyrir einu og hálfu ári síðan þá ákvað ég að kaupa mér almennilega gönguskó. Það væri svo sem ekki frá sögu færandi nema auðvitað varð mér hugsað um Kárahnjúka og keypti því skó með hörðum botni sem væru góðir til að ganga úti í náttúrinni. Núna sé ég eftir þessu. Þetta eru einu skórnir sem ég get verið í yfir daginn og þeir eru alveg að drepa mig. Þar sem ég labba bara á malbiki þá er harði botninn að smátt og smátt að drepa iljarnar á mér. Ekki batnar það síðan þegar hnjáliðirnir fara að bólgna. En maður harkar þetta af sér og hugsar til feita launaseðilsins sem maður fær í lok mánaðarins.

Á flugvellinum er lítið kaffihús sem starfsmenn innan vallarins geta farið á til að fá sér í svanginn eða svalað koffínþörfum sínum. Þetta kaffihús er rekið af mjög brosmildum manni sem talar litla sem enga ensku (held reyndar að hann tali einhverja þýsku). Þar sem albönsk nöfn eru stundum ill munanleg þá hefur eigandinn alla tíð verið nefndur Smiley og staðurinn Smileys. Fyndna er að maðurinn svinldaði á öllum útlendingunum hér í nærri hálft ár áður en þeir föttuðu það. Fólk var að borga 1,5 evru fyrir kaffibollann og þótti ekkert tiltökumál. En einhvern vegin fattaðist það að innfæddir voru aðeins að borga 0,5 evru fyrir sama kaffibolla. Þetta olli meiriháttar veseni og það endaði með því að allar eru að borga það sama í dag.

18.7.05

Krákur, "Norm-fílingur" og Snati

Á hverjum degi þegar við hættum skiljum við eftir þrífætur og spegla uppi í punktunum því það flýtir fyrir okkur daginn eftir. Í gærmorgun þegar við komum út á flugvöll höfðu krákurnar, halda sig í kringum flugvöllinn, fundið sér stað í kringum einn þrífótinn og hafði ein meira að segja sest upp á spegilinn. Þetta var frekar skondin og frískandi sjón svona í morgunsárið. Því miður náðust engar myndir því þegar við stigum út úr bílnum flugu þær á braut.

Ég og Jón höfum farið á sama veitingastaðinn á hverju kvöldi frá því við komum hérna. Þetta er eina veitingahúsið í stuttri fjarlægð frá flugvellinum og við höfum bara ekki orku í að keyra inn í Pristína til að fá okkur í svanginn. Nú er svo komið að við fáum alltaf einhverskonar bruschetta frá staðnum í forrétt og einu sinni fengum við kaffi eftir matinn. Þjónarnir heilsa okkur með virktum og kveðja okkur með handabandi. Ég er alveg viss um að ef þeir vissu hvað við hétum væri kallað hátt yfir allan staðinn "Halli" þegar maður gengi yfir þröskuldinn.

Húsið okkar er varið af stórum þýskum fjárhundi sem ég og Jón erum búnir að skíra Snata. Snati er mjög góður varðhundur, svo góður að hann geltir ennþá á okkur. Við héldum að hann væri búinn að taka okkur í sátt um daginn en allt kom fyrir ekki því hann er aftur farinn að gelta að okkur þegar við komum heim á kvöldin. Sem betur fer geltir hann ekki á nóttunni því annars væri ég búin að fremja hundsmorð.

17.7.05

Steikjandi hiti og flughrekkir

Það er óhætt að segja það ég vildi óska að við værum að mæla upp flugvöll í kaldara loftslagi. Þegar við erum úti á velli þá stöndum við í nokkur hundruð metra fjarlægð frá næsta skugga og loftkælingu. Ég þramma fram og aftur eftir flug- og aksturbrautum á meðan Jón Þór stendur kyrr við tækið. Báðir verðum við ótrúlega þreyttir og slepjulegir eftir þetta. Það skal reyndar viðurkennt að ég fæ stundum tækifæri að setjast inn í bíl, á meðan við rýmum brautina, en það virðist ekkert bæta ástandið á manni. Allur þessi hiti í sambland við vinnuálagið hefur gert það að verkum að ég er farinn að telja daganna þangað til ég kemst heim.

Í gær varð smá flugatvik. Ég og Blerim vorum nýbúnir að fá leyfi til að fara aftur út á flugbraut og vorum rétt byrjaðir að mæla sniðin þegar það er kallað í talstöðina. Hann lítur upp og baðar síðan öngunum í átt að enda flugbrautarinnar og hleypur síðan af stað. Ég horfi í áttina sem hann benti og viti menn þar er lítil Cessna sem virðist vera að koma inn til lendingar. Við hlaupum eins og fætur toga í burtu en vélin flýgur lágt yfir okkur en lendir ekki. Þá byrjar turninn að kalla: "Afhverju voru þið svona hræddir?" Þá var málið að þetta var prufuvél fyrir radarinn og turninn var bara að hrekkja okkur. En ég skal viðurkenna að í nokkrar sekúndur þá hugsaði maður: "Shit, það er flugvél að fara að lenda á hausnum á mér."

Að koma hérna til að vinna fyrir þessa Svía hefur sannfært okkur að þeir viti ekkert í sinn haus. Fyrir það fyrsta vildu þeir mæla upp allar flugbrautir upp með 5 mm nákvæmni. Sem væri í lagi ef þær væru eitthvað í nánd við það að vera sléttar. Meðan ég hef verið að labba á brautunum þá sé ég að þær eru langt frá því að vera fullkomnar þannig að til þess að ná þessari nákvæmni þá væri nauðsynlegt að mæla á svona 5 cm fresti.
Síðan vilja þeir mæla upp allt svæði í kring með 2 cm nákvæmni og allt á að mælast í 10x10 m grid. Við reiknuðum út að við þyrftum um 8000 punkta bara til að mæla flug- og akbrautina. Við náum vonandi að klára allar malbiksmælingar áður en við förum heim. Þá þurfum við að koma aftur í águst að klára restina.
Við erum reyndar komnir vel á veg, þótt að við höfum nærri ekkert náð að mæla á flugbrautinni sjálfri. Vonandi náum við að klára akbrautina í dag og þá ættu næstu dagar að fara eingöngu í flugbrautina. Eftir þetta verkefni þá er vonin að ég þurfi aldrei að koma nálægt flugvöllum í sambland við Svía.

16.7.05

Þrælahald, hænur og goðsagnaslátrarar

Þegar þessari ferð er lokið má með sanni segja að ég hafi komið til Kosovo en aldrei séð landið. Við erum mættir hérna á flugvöllinn ekki seinna en klukkan níu á morgnanna og er kannski í klukkutíma að undirbúa, athuga póst (stelast í að blogga) og peppa okkur upp fyrir daginn. Síðan er þrammað um allan flugvöllinn og mælt, ef maður þarf ekki að hlaupa af flugbrautinni vegna flugvéla. Síðan hættum við í fyrsta lagi klukkan sjö um kvöldið.
Reyndar hafa síðustu dagar allir farið í 13 klukkutíma vinnudaga, þannig að óhætt er að segja það að maður sé þreyttur þegar maður loksins kemst upp í rúm. Ég væri reyndar til í að sólarhringurinn væri um 3 klukkustundum lengri 2 tímar fyrir svefn og 1 tími fyrir frístundir. En maður hugsar bara um feita launatjékkan í lok mánaðarins og maður tekur gleði sína á ný.

Það er frekar skondið að koma út á morgnanna og mæta þar hænu sem er í mestu makindum að leita sér að æti. Húsið okkar er nefnilega innan hás veggjar sem umliggur það og næsta hús, en maðurinn sem leigir okkur húsið á þau bæði. Innan veggjarins er fjölskyldan síðan með matjurtagarða og hænur. Reyndar minna þessar hænur mann dáldið á íslensku hænsnin því hvít hænsni sjást ekki þar.

Ef á hverju kvöldi síðan ég kom horft á a.m.k. einn þátt af Myth Busters. Fyrir þá sem ekki vita eru þetta snilldar þættir með tveimur mönnum sem hafa unnið mikið í "special effect" hlutum á ýmsum kvikmyndum og auglýsingum. Þeir taka yfirleitt þrjár "urban legends" fyrir í hverjum þætti og reyna að endurgera þær til að dæma um hvort þær sé mögulegar eða ekki.
Sérstaklega er gaman að sjá þegar þeir eru að fjalla um einhverjar sprengirnar því ef þeim tekst ekki að ná sprengingu út úr aðferðinni sem goðsögnin segir til um þá auka þeir bara magnið af sprengiefni til að fá stóra hvell. Til dæmis þegar þeir voru að vinna í goðsögninni um klósett sprengingu með skordýraeitri. Þegar það tókst ekki þá helltu þeir slatta af byssupúðri í klósettið og sprengdu það. Ráðlegg öllum sem hafa ekki séð þessa þætti að reyna að sjá þá.

15.7.05

Gamall herflugvöllur

Alþjóðaflugvöllurinn í Pristína er gamall herflugvöllur, sem sést best á því að frá honum liggja tvær akbrautir inn í Golesh, sem er nálægt fjall, þar sem allar fluvélarnar voru geymdar. Í stríðinu var áætlunin sú að Bandaríkjamenn næðu flugvellinum og Rússarnir kæmu á móti þeim. Kanarnir sáu náttúrulega þetta allt í hyllingum því með því að ná flugvellinum fengju þeir fullt af MIG-fluvélum til að rannsaka. En auðvitað vissu Rússarnir þetta líka og flýttu sér eins og þeir gátu og náðu flugvellinum á undan Könunum.
Þegar Bandaríkjamenn komu loksins að flugvellinum voru Rússarnir í óða önn að pakka öllum flugvélunum ofaní gáma og senda þær til Rússlands. Bandaríski Generallinn var svo reiður að hann fyrirskipaði árás á flugvöllinn. Ekkert varð þó úr henni og engar erjur urðu á milli "bandalags"-þjóðanna, generállinn var þó fljótlega kippt frá Kosovo og herma sögur að hann hafi verið leystur frá störfum.

Ég talaði í gær um stafla af riflum á kaffihúsinu hér á flugvellinum. Þegar ég fór næst á kaffihúsið, eftir að hafa sent inn bloggið, voru austurískir hermenn að bíða eftir Varnamálaráðherranum sínum og auðvitað lágu byssurnar þeirra bara á jörðinni á meðan.

14.7.05

Stórir hundar og almenn furðulegheit

Hér í Kosovo eru úlfar, það er okkur er sagt að hér séu úlfar því við höfum aldrei séð þá. Okkur hefur verið sagt ýmsar sögur af þeim og meðal annars hefur næturvaktinn á flugvellinum þurft að reka þá af flugbrautinni. Bændurnir hérna eru viðbúnir því þeir hafa ræktað hundategundin sem hefur í ófá skipti í gegnum tíðinni tekið úlfa í bakaríið. Þótt að þeir líti út eins og bangsar þá eru þetta stórir bangsar með stórar tennur.

Það verður að segjast að vinnudagurinn hjá manni sé frekar furðulegur. Það gerist alla vega ekki oft að maður þurfi að setjast aðeins niður á miðja flugbraut og bíða eftir því að næsta flugvel fari hjá. En hérna er þetta daglegt brauð. Á myndinni má sjá hann Bierim sem að þarf að kalla reglulega í flugturninn til að fá heimild fyrir okkur að færa okkur til inn á flugvellinum. Ég veit ekki hvað það er komið oft sem maður heyrir: "Kula India 2..." og hvað oft í viðbót maður á eftir að heyra það.

Hér er líka nóg af hermönnum og á hverjum degi kemur flugvél með nýja og tekur gamla í burtu. Frekar furðulegt að setjast niður fyrir framan kaffihúsið og þar séu ekkert nema hermenn með alvæpni. Stundum hafa þeir hrúgað M-16 riflunum sínum á einn stað og sitja í makindum með kaffibolla. Og til að svara spurningum örugglega nokkura einstaklinga, nei ég hef ekki fengið að prófa.

13.7.05

Vespur, drulla og forgangsröðun

Fyrsti morgunin byrjaði helvíti vel, hugurinn leitaði aftur til þýskalandsferðar fjölskyldunnar fyrir 22 árum. Höfðum fengið úthlutað gámi til að geyma tækin okkar í. Ég fór út í hann á mánudagsmorgninum og náði í GPS-tækin svo hægt væri að stilla þau fyrir mælingarnar. Þegar ég lokaði gámnum fann ég fyrir snertingu á handarbakinu og sá þá stærðar vespu sitja þar í mestu makindum og munda broddinn. Ég náði að hrista hana af mér og hopa frá gámnum. Þegar betur var að gáð höfðu vespurnar búið sér til bú í gati sem var á hurðinni á honum. Það var frekar fyndið að sjá fólk fara í gáminn það sem eftir var dagsins. Daginn eftir var búið að eyða búinu.

Til að við getum mælt upp flugvöllinn þurfti að koma fyrir 15 fastmerkjum á víð og dreif um flugvöllinn. Jarðvegurinn hérna á flugvellinum er þykkur leir sem er eins og besta lím þegar hann blotnar. Nauðsynlegt var að koma fastmerkjum niður í jörðinni ekki nær flugbrautinni en 45 m svo við þurftum að þramma í leirnum þangað. Þegar komið var aftur að flugbrautinni hafði maður þyngst um 5 kg af leirdrullu sem safnaðist undir skónna. Var frekar kómískt að horfa á okkur reyna að hreinsa drulluna og á endanum var nauðsynlegt að grípa til háþrýstidælu til að hreinsa almennilega undan skónum.

Þegar við komum í húsið sem við fengum til afnota á sunnudagskvöldið var klukkan orðinn frekar margt. Á meðan að eigandinn var að sýna okkur húsið og hvernig allt virkaði fór rafmagnið af. Við hlógum dáldið að því á meðan eigandinn kveikti á rafmótor sem hann átti. Með ljósinu sem hann gaf gátum við komið okkur fyrir og farið að sofa. Næsta dag þegar við komum heim kom eigandinn og sýndi okkur stoltur rafgeymi sem hann hafði keypt svo að raftæki sem nauðsynlega þyrftu á rafmagni að halda fengju það. Við hann hafði hann tengt ískápinn og sjónvarpið, tveir af mikilvægustu hlutunum í húsinu.

12.7.05

Kosovosögur

Nú ætla ég aldrei aftur að ferðast á almennu farrými. Fékk að kynnast því hvernig það er að ferðast á Saga Class og er það ótrúlegur munur. Sérstaklega er gott að bíða í flugstöðunum, þótt ég hafi ekki fengið "en pölse" í Köben. Reyndar reyndu flugfreyjurnar í Austrian Airways að eitra fyrir okkur með einhverju forrétt sem bragðaðist eins og ég veit ekki hvað.

Fengum hús út af fyrir okkur rétt hjá flugvellinum og er það helvíti fínt. Frekar skrýtið samt að sitja í rólegheitunum um kvöldið þegar rafmagnið fer allt í einu af, því að í Kosovo hefur fólk rafmagn í 5:1 tíma, það á í 5 og af í 1 klukkutíma. Okkar tími lendir akkúrat á milli 11 og 12 á kvöldin svo það minnir mann bara á að fara snemma að sofa.

Vinnan er hrikaleg í svona veðri, um 30°C og logn og vinnustaðurinn er í 500 m frá einhverjum skugga. Mundi samt eftir að bera á mig sólaráburð sem er annað en Jón Þór gerði svo hann er orðinn frekar rauður núna. Í svona hita er maður alveg að sofna og í báðum hádegunum síðan ég kom hef ég nærri sofnað fram á borðið. Hitinn hefur líka mikil áhrif á líkamann t.d. í morgun var ég orðinn ansi lágur í blóðsykri svo maður varð að redda því með gosi og súkkulaði.

Er á leið út í mælingu núna, en ætla að reyna að koma inn nokkrum myndum og frásögnum af atvikum hérna frá "átakasvæðinu".