28.10.06

Eitthvað út í loftið

Þori ekki annað en að setja smá inn og segja frá því að ég er enn á lífi. Ég er þó annsi stressaður í próf undirbúningnum. Ég hef enga hugmynd afhverju það er þar sem ég er venjulega aldrei stressaður. Kannski er það tilhugsunin um að þurfa að gera allt saman á ensku, kannski er það bara nýjabrumið við að gera þetta við nýjar aðstæður eða ég veit ekki hvað. Eina sem ég veit er að ég verð mjög fegin eftir 10 daga þegar þetta verður afstaðið.

Mamma og pabbi koma síðan 3 dögum eftir að prófunum líkur og því er smá spenningur þar líka. Ég er búin að borga hótelið þeirra og panta bílinn. Þeir hjá bílaleigunni voru einmitt svo almennilegir þegar þeir heyrðu um ökuskírteinið mitt að þeir sögðu mér bara að láta pabba minn senda mér skannaða mynd og þeir myndu lána mér bílinn svo ég gæti sótt þau út á flugvöll. Ég er síðan búin að panta borð fyrir okkur um kvöldið á veitingastað sem er upp í Skytower. Framhaldið verður síðan 2 dagar fyrir norðan Auckland og 3 dagar fyrir sunnan. Þar er ég þó ekki búin að panta neina gistingu en þar sem þetta er off season þá verður það ekkert mál að fá slíkt.

Annars rakst ég á myndband í dag sem var annsi gott. Ímyndið ykkur ef Höddi Magg væri svona.

25.10.06

Allt í þessu fína

Neibb get ekki sagt að fréttir af hvalveiðum Íslendinga hafi haft mikil áhrif á hvernig fólk hefur komið fram við mig hérna á suðurhvelinu. Fólkið hérna á Railway hefur ekki einu sinni minnst á þetta á fyrra bragði en ég hef óspart gert grín að þessu og kallað sjálfan mig fordæmdan mann. Fólk hefur sýnt þó smá áhuga en þegar það heyrir hvað "mikið" (ætti eiginlega að kalla þetta lítið) við ætlum að veiða þá hefur það yfirleitt bara hlegið að þessu. Ég held að flest fólk með einhverja rökræna hugsun fatti hvað asnalegt þessi mikla gagnrýni á okkur er asnaleg. Annars hefur fólkið hérna sýnt miklu meiri áhuga á að komast í hákarl og brennivín eða jafnvel hval-grillveislu heldur en veiðunum sjálfum. (Fann þessa skemmtilegu lýsingu á hákarlsáti.)

Kom dáldið skemmtilegt fyrir mig um daginn. Var að labba niður á Queen Street þegar ég heyri allt í einu íslensku við hliðina á mér. Auðvitað sný ég mér við og ávarpa mannskapinn: "Eru þið Íslendingar?" Kom í ljós að þetta voru flugmenn hjá Flugleiðum sem voru að fljúga með Kanadamenn í hnattferð og voru staddir hérna í nokkra daga. Ég reyndi eftir bestu getu að gefa þeim tips um hvað þeir ættu að kíkja á. Þetta var eiginlega dáldið súrrealískt að hitta landa þarna niður í miðbæ. Ég veit að það eru fullt af Íslendingum hérna en þetta er alltaf fyndið.

18.10.06

Gist í höll óvinsins

Ætli maður verði úthúðaður á götum úti núna?

Ísland í fréttum.

Fréttir af dauða mínum voru stórlega ýktar.

Jebb, ég tóri enn þó að lítið hafi birst á síðum veraldarvefsins um dvöl mína hérna á suðurhveli. Ég ákvað bara ekkert að reyna að keppa við systur mína um athygli á blogginu okkar þar sem miklar og stórar fréttir komu frá Belgíu á meðan nýbakaður móður bróðir sat að mestu inn í herbergi og lærði.

Búið að vera ágætis törn sem er við það að ljúka. Á reyndar eftir 1 verkefni áður en ég get formlega sagt öllum verkefnaskilum lokið og einbeitt mér að próflestir. Prófin byrja hjá mér 31. okt og er ég orðin spenntur að sjá hvernig þetta fer allt fram. Reyndar var ég að komast að því að þeir eru mun strangari á reiknivélum heldur en heima og þarf ég því að redda mér einni mjög einfaldri áður en fyrsta prófið byrjar.

Þessi tannsi er nú "on going process" því ég er vikulegur gestur í stólnum hjá honum á meðan hann borar í skemmdirnar mínar og fyllir upp í. Það fer örugglega að koma að því að hann heilsi mér út á götu því ég mun næstum því fara oftar til hans en ég hef farið til Tomma um ævina. Ég tek þó alla sök á því þar sem ég hef ekki verið eins duglegur eins og var í den að sjá um tennurnar í mér. Núna er burstað minnst kvölds og morgna og skolað út með munnskoli. Einnig hef ég slakað á í sælgætisáti og kókdrykkju svona til að létta aðeins á eiturefna árásum á tennurnar í mér.

Ég hef þó ekki verið alveg læstur inn í herbergi hjá mér síðustu tvær vikurnar. Um daginn skellti ég mér í teygjustökk. Ákvað, mömmu vegna, að hafa teygjuna um mittið í staðinn fyrir að láta hana toga í lappirnar á mér. Reyndar var upplifunin ekki eins mögnuð og í fyrsta skiptið þó þetta hafi verið bara ágæt skemmtun. Ég sá þó eftirá að ég hefði getað gert stökkið skemmtilegra með því að reyna við heljarstökk í byrjun til að koma smá snúningin á líkaman. En ég held að ég hafi bara verið svo stressaður áður en ég stökk að mér koma það ekki til hugar.

Aðstæðurnar þarna eru dáldið skemmtilegar. Þeir byggðu gönguleið undir brúnni og í miðjunni komu þeir fyrir litlu húsi þar sem þú stekkur út. Erfitt að útskýra þetta og myndirnar sem ég tók sýna þetta ekki nægjanlega vel. Maður ætti kannski að koma með þessa hugmynd þegar þeir byggja Sundabrautarbrúnna. (Pabbi geturðu ekki skipt um skoðun núna og komið því fyrir að þeir muni hafa brú með 65 m fríhæð bara svona til að gera gott úr þessu?)

Á sunnudeginum fyrir viku þá skellti ég mér í dýragarðinn. Einhverra hluta vegna þá verð ég bara aftur að litlum strák þegar ég kem í dýragarð þess vegna var algjör snilld að skella mér í hann í miðjum önnum að klára eitt verkefni því ég kom algjörlega afslappaður til baka og gat klárað verkefnið með trompi. Dýragarðurinn er svona miðlungs stór en með annsi fjölbreytt dýr. Ætla samt ekki að byrja á neinum ýtarlegum lýsingum því það myndi þýða að ég sæti að skriftum næstu klukkustundirnar...

p.s. Ella ég er loksins búin að fatta quotið sem þú ert með á blogginu þínu...Fish Called Wanda.

4.10.06

Tannsi

Hér er nú lítið búið að gerast þar sem mestur tími manns fer í að reyna að læra. Aðeins eru 3 vikur eftir af önninni og því er álagið í hærri kantinum, eins og flest allir þekkja úr skólum heima. Auðvitað hefur maður verið duglegur að mæta niður í eldhús og eldað með öllu fólkinu en stundum heldur maður sig bara upp á herbergi þar sem þegar maður vill hafa tíma til að læra eitthvað um kvöldið. Því ef þú kíkir niður þá ertu fastur á spjalli næstu fjóra tímana. Eitthvað er reyndar um að fólk sé að plana ferðir núna næstu helgar en ég held að ég taki frekar slurk í lærdómi og bíði með skoðanaferðir fram á sumar. Það eru nokkrir sem verða hérna allt árið og við höfum talað um að fara í nokkrar ferðir.

Mamma og pabbi koma síðan 10.nóv og verða hjá mér í nokkra daga. Pabbi tókst einhvern vegin að sannfæra sína yfirmenn að hann þyrfti endilega að komast á ráðstefnu í Sydney í byrjun nóvember með góðum árangri. Ætlunin er að skoða sig aðeins um en þar sem tímin er naumur verður bara norðurhlutinn af norðureyjunni skoðaður. Þau þurfa þó ekkert að örvænta þar sem af nógu er að taka og ég á í meiri vandræðum að finna út hverju ég á að sleppa frekar en hvað á að gera. Stefnan er að leigja bíl þessa daga en þar sem ég bíð ennþá eftir ökuskírteininu mínu þá get ég það ekki. Ég verð kannski bara að prófa hvort þeir taki mig trúanlegan þegar ég segi þeim að ég hafi ökuskírteini en það sé bara búið að vera um 2 mánuði á leiðinni. Reyndar með viðkomu til Ástralíu...

Aðal dæmið hjá mér núna er reyndar tannsi. Ég tók eftir því að ég var komin með annsi stóra holu í einum jaxlinum og smellt mér því til tannlæknis. Hann skoðaði mig og sá nokkrar holur sem hann vildi laga. Einnig bennti hann mér á að ég hlyti að gnísta tönnum á nóttunni þar sem ég gæti svo auðveldlega farið úr liðnum. (Ég held að allir hafa heyrt um söguna þegar mamma þurfti að taka mig upp á slysó til að smella mér í lið aftur. Ef ekki hafið þá bara samband við Sigríði í síma 553-5229.) Úr þessu varð að hann vill að ég komi nokkrum sinnum og geri við skemmdirnar og komi síðan og láti útbúa góm sem ég þarf að sofa með sem mun hjálpa mér með kjálkavandræði mín.

Virðist vera alveg hinn fínasti tannsi en kemst þó ekki í hálfkvisti við Tomma heima á Fróni. (Ef einhver er á leiðinni til hans þá bið ég innilega að heilsa.) Ég var einmitt hjá tannsanum núna rétt áðan að gera við stóru holuna og gekk það bara annsi greiðlega. Reyndar varð hann dáldið hissa þegar hann var búin og ég gat ekki lokað munninum og varð að hjálpa til með því að toga kjálkan aðeins niður og koma honum í liðinni aftur. Hann og hjálparanum fannst þetta helst til fyndið og kannski ekki alveg viðbrögðin sem maður bjóst við hjá tannlækninum sínum.