12.3.07

Wahiki, skóli og nostalgíu-tónlist

Um síðustu helgi skrapp ég ásamt nokkrum öðrum af Railway (þótt maður búi ekki þar núna eru allir gömlu vinirnir ennþá þar) til Wahiki. Wahiki er lítil eyja sem tilheyrir Auckland umdæminu. Þar er mikið af vínræktundum og fyrir utan að keyra aðeins um var meginmarkmið ferðarinnar að bragða á framleiðslunni. Undirritaður var recruited sem ökumaður og var það auðsótt mál í ljósi þess að eyjan er mjög falleg ásýndar.

Það er nú lítið hægt að segja um þessa heimsókn annað en að við skemmtum okkur mjög vel. Eina sem betur hefði mátt fara var að ég er ennþá fastur í íslensku veðurfari svo ég þarf ekki annað en að sjá ský út um gluggan hjá mér og ég geri strax ráð fyrir því að það sé kalt. En svo var auðvitað ekki og ég missti af smá svamli í sjónum í lok dagsins. Það var nú reyndar ekkert sem ég græt heldur lagði ég mig bara á ströndinni á meðan. Auðvitað var smellt af myndum og ættu þær að birtast á síðunni eftir ekki svo langan tíma.

Annars er skólinn að komast í gang og núna er ég loksins komin með fullskipaða stundatöflu. Reyndar þurfti ég að gera ýmsar málamiðlanir og meðal annars er ég í mannkynssögu kúrsi. Sá fjallar um sögu Kyrrahafsins frá 1800 og er eiginlega um hvernig ásýnd svæðisins breyttist öll með tilkomu evrópubúa á svæðinu. Virðist vera mjög áhugaverður og meðal annars átti ég mjög langt spjall við kennarann um þetta allt saman.

Síðustu daga hef ég verið að detta ofan í algjöra nostalgíu hvað varðar tónlist. Þetta byrjaði allt um daginn þegar ég fékk þessa ótrúlegu löngun til að hlusta á Blood Sugar Sex Magik með Red Hot Chili Peppers. Snilldar plata sem hefur ekki versnað í gegnum tíðina. Núna er ég að hlusta á Smash með Offspring og verð ég að segja að maður skilur núna af hverju maður hlustaði á þessa hljómsveit í upphafi því þótt að nýrri lögin þeirra séu frekar ómerkileg þá er þessi plata tær snilld.

5.3.07

Samóa

Ég veit, ég veit það eru komnar 2 vikur síðan ég kom heim og ekki eitt orð um mína frábæru leti og köfunarferð til Samóa. Ég hef ekkert mér til málsbóta nema að mig langaði bara til að eiga ferðina með sjálfum mér í aðeins lengri tíma eða kannski bara að ég hafi aldrei komið mér til að byrja að skrifa. Því lengur sem líður á þessa dvöl mína og ég þarf að blogga um fleiri og fleiri hluti skil ég alltaf minna og minna hvernig nokkur getur verið rithöfundur.

En alla vega ferðin hófst eldsnemma á miðvikudagsmorgni. Vegna samblands af stressi og löngun til að nýta allan tíman sem ég gat til að internetast og leika mér þá sofnaði ég seint og svaf stutt. Markmiðið var að sofa í flugvélinni en sú áætlun fór út um þúfur því eins og vanalega átti ég mjög erfitt með að sofa eitthvað þótt ég hafi fengið mjög gott sæti í flugvélinni.

Það var ótrúlegur hiti sem tók á móti mér þegar ég steig út úr flugvélinni og um leið sá ég eftir því að hafa ekki verið í buxum sem ég gat breytt í stuttbuxur. Það var einnig furðuleg tilfinning að allt í einu var komin þriðjudagur því leið mín lá yfir daglínuna. Eina sem ég þurfti að gera á úrinu mínu var að breyta dagsetningunni því það er 24 tíma munur á Nýja Sjálandi og Samóa. Um leið og maður steig út úr tollinum var "ráðist" á mann af leigubílsstjórum sem vildu ólmir koma mér á leiðarenda. Í upphafi ætlaði ég bara að rölta að ferjunni sem myndi flytja mig yfir á Savaíi en eftir að hafa labbað í smá stund með bakpokann ákvað ég frekar að eyða pening í taxa.

Ferjan sem flutti mann yfir var eiginlega aðeins ætluð fyrir bíla og því var ekki mikið um staði til að sitja. Ég endaði á því að sitja fyrir utan skipstjórnarklefann og lesa bók. Þegar komið var yfir á Savaíi tók á móti mér einn af eigundum Tanu Beach, þar sem ég ætlaði að gista, og fékk ég far með honum á leiðarenda.

Á Tanu var tekið á móti mér með ferskum banönum og kókoshnetu sem maður sötraði safan úr á meðan manni var kynnt fyrirkomulagið. Innifalið í gistingunni var morgunmatur og kvöldmatur og kallað var til matar, eins og amma gerir upp í Dokku, með bjölluglamri. Það var frekar súrrealískt að líta á kofann sem maður gisti í og er einfaldlega bara best að benda á myndirnar af honum.

Ég ætlaði mér að tala við köfunarskólan strax á miðvikudagsmorgninum en í staðinn datt ég inn í túr um eyjunna sem skipulögð er af Tanu Beach. Lagt var snemma af stað og keyrt hringinn í kringum eyjuna. Stoppað var á nokkrum stöðum og okkur leyft að dást að útsýninu. Þar fyrir utan var bílstjórinn okkar í góðum fíling og gat sagt okkur margt og mikið um eyjuna fyrir utan að svara öllum spurningunum sem við baunuðum á hann.

Fyrsta stoppið var "Canopy Walk" þar sem búið er að byggja tvö palla lengst upp í trjákórunum og brú á milli. Hægt var að klifra þarna upp og skoða útsýnið. Þetta var nokkuð skemmtilegt en þegar maður hugsaði um hvað maður borgaði fyrir þetta var maður nokkuð svekktur.

Næsta stopp var fyrsti hápunkturinn en það voru blásturholur. Sjórinn er búin að bora sig inn í hraunið og mynda frekar littlar holur í toppnum. Þegar háflóð er og mikill öldugangur þrýstist vatnið þarna inn og upp. Það voru holur þarna sem gusu álíka hátt og góður hver og til að sýna okkur þetta betur kom þarna gamall maður með haug af kókoshnetum sem hann henti ofan í holurnar rétt áður en gaus.

Næsta stopp sló nú samt blástursholunum við en það var foss sem féll ofan í lítið lón umlukið bröttum grasivöxnum brekkum. Einhverjum varð á orði að þetta væri það sem Kyrrahafsdraumar væru gerðir úr og er óhætt að segja að ég sé alveg sammála því. Við svömluðum þarna um, henntum okkur ofaní af klettunum í hring eða bara sátum undir fossinum sjálfum. Það lá við að leiðsögumaðurinn okkar þyrfti að draga okkur upp úr til að við gætum haldið förinni áfram.

Síðasta stoppið var síðan að svamla með skjaldbökum í littlum polli sem er í bakgarðinum hjá einni fjölskyldu þarna. Þetta var mjög gaman á meðan á stóð en eftir á að hyggja þegar maður er búin að heyra alla staðreyndirnar um þennan stað fannst manni þetta frekar ljótt. Í pinku littlum polli eru um 20 skjaldbökur sem í fyrsta lagi eru ekki vanar að lifa í ferskvatni og í öðru lagi eru fóðraðar á mat sem er venjulega ekki á matseðli þeirra.

Áður en ferðinni lauk stoppaði ég fyrir utan köfunarskólann og talaði við Fabien og Flavia um hve köfunarnámskeiðið. Þau voru bæði mjög almennileg og þótti lítið mál að smella mér inn í prógramið. Reyndar var ég eini viðskiptavinurinn allan tíman (í köfun það er að segja) og því fékk ég mjög góða umönnun í námskeiðinu.

Næstu dagar fóru að mestu í námskeiðið sem var bæði skemmtilegt og áhugavert. Fabien var mjög ánægður með mig og þar sem ég hafði ómælda áhuga á þessu öllu saman átti ég ekki í neinum vandræðum með prófið.

Einn daginn hitti ég nokkra gesti af Tanu og fór með þeim í næsta bæ þar sem kirkja ein hafði orðið undir hrauni sem flæddi 1905. Mjög áhugavert að sjá þetta og rifjuðust upp sögur af Eldklerkinum á Klaustri þegar maður labbaði þarna um. Nálægt kirkjunni er síðan gröf sem virðist hafa verið ósnert af hrauninu og segja munnmælasögur að þar hvíli hrein mey. Fólkið gat nú samt lítið sagt annað um þessa manneskju en það og því lagði maður ekki mikið meiri trúnað í þá sögu en það.

Köfunarferðirnar voru allar mjög áhugaverðar þó að skyggni og veður leyfðu okkur ekki nema köfun á einu stað. Þetta er mjög stór staður sem kallast Kóralsgarðurinn. Neðan sjávar sá maður margt skemmtilegt. Frænda hans Nemó, múrenu, stórar "perluskeljar", fjöldann allan af hitabeltisfiksum í öllum regnbogans litum og plöntu sem skipti um lit. Nokkur skipti sáum við skjaldböku og einni ferðinni okkar eltum við eina í um 10 mínútur, sem meðan annars þýddi það að við fórum dýpra heldur en við áttum að gera. (Ekkert hættulegt, þetta var í annari köfuninni og samkvæmt PADI áttum við bara að fara á 12 m en við enduðum í 16 m. Námskeiðið leyfir köfun upp á 18 m.)

Nú er mig bara farið að hlakka til að kafa aftur og þá sérstaklega þegar ég fer til Ástralíu því þar ætla ég að nota tækifærið og fara í köfun á The Great Barrier Reef. Það gæti líka vel verið að ég kíki á köfunarklúbbinn sem er starfræktur í Háskólanum en ég á samt ekki von á því að ég muni eyða miklum tíma í það þar sem ég mun hafa nóg annað að gera.

Yfirleitt þá var bara einfaldlega of heitt til að vera að gera eitthvað annað en að svamla í sjónum. Því var öllum áætlunum um að labba upp á eldfjallið hent fyrir bý og í staðinn voru öll tækifæri notuð til að snorkla eða bara einfaldelga liggja í skugganum með góða bók og tónlist.

Á meðan dvöl minni stóð dvöldu tvær konur á svipuðum aldri og mamma á Tanu. Einhvern vegin æxlaðist það að þær voru búnar að taka mig undir sinn verndarvæng. Sem var eiginlega bara mjög gott því daginn sem ég fór heim leit allt út fyrir það að ég þyrfti að sitja á flugvellinum í 12 klukkutíma en í staðinn, þar sem þær gistu á 4 stjörnu hóteli 5 mínútur frá flugvellinum, sat ég og spjallaði við þær og gæddu mér á dýrindismat á veitingastaðnum sem var á hótelinu.

Þetta hótel var aljgörlega í hrópandi andstöðu við kofanna sem maður hafði sofið í síðustu vikuna en þó var gaman að kíkja aðeins á þetta. Það var sérstaklega gott að fá aðgang að sturtu áður en ég fór á flugvöllinn að það hálfa væri nóg. Við hittum reyndar einn ótrúlega áhugaverðan karakter. Á meðan við sátum og sötruðum síðdegisteið okkar settist maður á næsta borð við okkur, Samói af eldri gerðinni. Við buðum honum að setjast með okkur og enduðum á að spjalla við hann í nærri 3 tíma.

Þetta voru mjög áhugaverðar samræður sem fóru úr trúmálum yfir í sögu eyjarinnar. Eða þá bara grobbsögur af honum sjálfum. Mér fannst lang skemmtilegast þegar hann var að sejga kvennafarssögur af sér og því mér fannst við ekki alveg vera áheyrendahópurinn fyrir það.

Ég verð að viðurkenna skömm mína og segjast ekki muna nafnið hans en það sem ég man er að ef þú þýðir nafnið hans yfir á ensku þá er það "The World". Svo ég hef spjallaði við Heiminn og geri aðrir betur. Ég veit ekkert hvað mikið af því sem hann sagði var lýgi og hvað var sannleikur en ég er alla vega búina að staðfesta það að hann var Nýja Sjálands meistari í hnefaleikum. Óstaðfest er þó hvort hann sé raunverulega frændi kóngsins í Samóa.

Þegar ég kom út á flugvöll hitti ég Stephan og Steffi en þau höfðu verið síðustu daga á eyjunni. Þau höfðu samt ekki tíma til að kíkja á Savaíi í heimsókn. Við tjékkuðum okkur samt leiðinlega seint inn og gátum því ekki fengið sæti saman. Ég hef aldrei verið eins seinn og þarna við að koma mér út í flugvél og í smá tíma hélt ég að við værum síðust en sem betur fer var einhver sem var ennþá seinna. Það besta við að hitt á Stephan var að þau áttu bíl og gátu gefið mér far heim.