23.2.07

Heppinn?

Jæja, þá er maður komin heim úr letinni á Samóa. Algjör snilldar ferð sem verður kannski endurtekin í lok dvalarinn hérna en það á allt eftir að koma í ljós. Ég ætla mér þó ekki að fjalla mikið um Samóa í þessari færslu því mig langaði bara til að tjá ykkur að ég varð heppnastur maður í heimi í gær, alla vega í mínum augum.

Flugvélin lennti í Auckland laust eftir klukkan 5 um morgunin og þar sem ég hitti Stephan og Steffi á flugvellinum í Samóa þá var farinu heim reddað (þau eiga bíl sem þau eru að fara að selja núna). Var nú ekki svo mikið hrifin af deginum sem var að byrja þar sem ég vissi að ég þyrfti að halda mér vakandi fram á kvöld til að eyðileggja ekki alveg næstu daga með því að sofa á vitlausum tímum.

Byrjaði reyndar ekkert gæfulega, þegar ég ætlaði að kíkja á netið til að athuga með póst og kannski að ná í skottið á einhverjum á skype þá lá netið niðri og var það svoleiðis fram að hádegi næstum því. Komst þó loksins inn minn heitt elskaði leik og komst að því að næstum engin hafði dottið í hug að senda mér línu, nema Sverrir og fær hann þakkir fyrir.

Um tvö leytið var ég orðinn annsi hungraður og var mikið að spá í að panta mér pizzu eða eitthvað en áður en ég gat komið því í verk kom Jörn heim. Ég orðaði við hann að ég væri svangur og við ákváðum að kíkja á Asian Food Court. (Eins og nafnið gefur til kynna eru þetta fullt af asískum veitingastöðum sem selja mjög ódýran en góðan mat.) Á leiðinni þangað bennti Jörn mér á plakat og spurði hvort að Calexico væri ekki uppáhalds hljómsveitin mín. Vildi þá ekki svo skemmtilega til að þeir voru með tónleika í gærkvöldi. Svo eftir stutt stopp til að byrja var brunað upp á miðasölu og þeir áttu nokkra miða eftir.

Þannig að út af einskærri tilviljun endaði ég á algjörlega snilldar tónleikum með uppáhalds hljómsveitinni minni í gærkvöldi. Þetta var alveg magnað "gigg" og þó það væri skrýtið að vera einn á tónleikunum var það ekkert verra, sérstaklega þar sem ég stóð við sviðið alla tónleikana og tók alla tónlistina beint í æð. Helber snilld og er ég ennþá að jafna mig á því að hafa verið svona heppinn. Versta er þó að nú langar mig bara að endurtaka tónleikana því þó ég hafi verið að hlusta á Calexico í allan dag er það langt í frá að vera það sama.

13.2.07

Síðasta bloggið....fyrir Samóa!!!

Yep, þið lásuð rétt. Eins og kom fram í síðustu færslu er undirritaðu bara á leiðinni á sólarströnd í heila viku. Þar verður lagst á lægra plan hvað leti varðar heldur en síðustu vikur, reyndar hef ég stjórnarskrárbundin rétt til að liggja í leti á sólarströnd en ég ætla nú ekki að gera mál út úr því. Fyrir alla þá sem þekkja mig vita að ég er ekki maðurinn til að liggja á sólarströnd allan daginn til að ná mér í lit svo ég er búin að finna mér ýmsa hluti til að eyða tímanum við.

Í fyrsta lagi ætla ég að láta aldargamlan draum rætast og taka próf í köfunarfræðum. Nálægt littla strandarkofanum mínum býr þessi almennilegi fransmaður sem ætlar að kenna mér í skiptum fyrir nokkrar kókoshnetur. Þar sem gengið á kókoshnetum er bara í nokkuð góðu lagi er þetta tilboð sem ekki er hægt að hafna. Námskeðið mun reyndar taka bróðurpartinn af tímanum mínum þarna en hvernig er hægt að hafna að eyða 4 dögum neðansjávar?

Hvað varðar restina af tímanum á bara eftir að koma í ljós hvað verður gert. Einhvern daginn mun ég hitta á Stephan og Steffi, Railway vinir, og í boði á fjölskyldunni sem á strandkofann minn er eyjaferð þar sem 1 degi er eytt í það að sýna túristum, eins og mér, allt það skemmtilega á eyjunni. Einn partur af þeirri ferð er að synda með skjaldbökum og það verður örugglega erfitt að koma mér upp úr þeirri laug. Ég veit reyndar ekki hvort það er hægt en það kemur vel til greina að reyna að leigja sér scooter til að skoða sig um.

Gekk frá tveimur málum í dag sem viðkoma skólanum. Annars vegar kláraði ég skráninguna í námskeiðin og hinsvegar kom ég einkununum mínum í póst til Íslands. Það var nú ótrúlegt vesen að koma mér í inn í námskeið fyrir næstu önn. Það er víst starfsmanna vesen í öllum deildunum þar sem ég gæti valið mér kúrsa svo það er lítið um val. En mér tókst að lokum að koma mér í 4 frekar áhugaverða. Reyndar eru þeir ekki fyrsta val en góðir engu að síður. 2 þeirra eru "block courses" þar sem öll tímasetan er í 2 hollum, þ.e. allt efnið er kennt 3 daga í senn frá 10-17 og þessar tarnir eru tvisvar fyrir hvorn kúrsinn. Þetta þýðir að eins og síðast verður ekki mikið um eðlilega tímasetu.

Þessar einkunnir ætla að verða algjört vesen. Í fyrsta lagi hélt ég að þetta gerðist sjálfkrafa en það er víst ekki rétt nema í lok dvalarinnar. En þar sem ég er fátækur námsmaður sem þarf á lánum að halda þurfti ég að koma þessu í verk sjálfur. Reyndar er þetta (ef það sem ég sendi heim er rétt) ekkert svo flókið þegar á hólmin var komið en til að fá það á hreint hvað ég þyrfti að gera þurfti ég að senda 4 mismunandi manneskjum e-mail. Svo núna sit ég bara með krosslagða putta og vona að námslánin mín verði komin inn á heftið mitt í næstu eða þar næstu viku.

Þannig lýkur hinni hinstu færslu....í bili. Ég skal senda ykkur öllum sólarhugskeyti.

6.2.07

Hér er ég, góðan daginn, daginn, daginn..

Jæja þótt að lítið hafi verið af bloggfærslum er ég nú ekki alveg dauður úr öllum æðum. Ég hef bara verið í svo ótrúlegu letilífi að ég hef ekki einu sinni nennt að logga mig inn á bloggið. Einnig þegar maður hefur beint samband við þær persónur sem lesa bloggið yfir höfuð þá minnkar áhuginn líka.

Ég veit að þið eruð öll óþreyjufull eftir fréttum en þær eru þó af skornum skammti. Síðustu vikur hafa bara verið tekið ótrúlega rólega. Tímanum hefur verið skipt á milli tölvuleikja, strandferða og almenningsgarðsferða. Einnig datt ég um daginn inn á alþjóðlega hátið götulistamanna sem var mjög gaman. Verð þó að viðurkenna að ég hef ekki tekið eina einustu ljósmynd af mínum gjörðum þar sem einhvern veginn hefur myndavélin gleymst alltaf.

Ég get þó sagt frá því að ég er fluttur inn í nýja íbúð. Nú bý ég ekki lengur á campus þar sem meðalaldurinn er 25 ár og stjórnendurnir koma fram við alla sem 14 ára heldur bý ég í asískri blokk mjög nálægt Skýjaturninum. (Fyrir þá sem ekki geta lesið kaldhæðnina í þessari setningu þá eru 75% íbúa í blokkinni af asísku bergi brotnir.) Ég og Jörn fundum þetta og smelltum okkur á þetta þó að íbúðin er svo lítil að það er varla hægt að kalla hana íbúð. Ég efast um að hún sé mikið meira en 35m2 en hún gerir sitt gagn og einnig eru leigusalarnir okkar alveg frábærir sem var eiginlega aðal ástæðan fyrir því að við tókum hana. Fyrir þá sem hafa áhuga þá er nýja heimilsfangið mitt:
Hallvarður Vignisson
Apartment 324
72 Nelson Street
Downtown
Auckland
New Zealand

Ég er líka búin að panta mér flugmiða til Samoa í næstu viku og mun liggja þar í leti í heila viku. Stefnan er reyndar að taka loksins köfunarprófið sem mig hefur lengi langað til. Ég mun búa á "Beach Fale" sem eru opin hús beint á ströndinni. Hlakka mikið til og ég skal lofa miklu myndaflóði þegar ég kem til baka. Það verður lítið um internet samband og GSM sambandið er víst þeim mun minna.

p.s. Gaman að segja frá því að þegar ég tók myndirnar áðan af íbúðinni þá var það í fyrsta skipti síðan ég flutti að ég kom við myndavélina mína.