30.6.07

Fluttur....á hótel

Jæja, núna er síðasta nóttin af staðinn í íbúðinni okkar og maður er að leggja lokahöndina á að pakka í töskurnar og henda út drasli sem næstu leigjendur hafa örugglega engan áhuga á að eiga. Hlutir eins og hálf klárað smjör eða hálf tómir hveitipokar eru dæmi um þá hluti, ég hef algjörlega staðið á því að henda öllum restum þó að níski Þjóðverjinn vill láta það eftir nýju leigjendunum að velja út það sem þeir vilja eiga. Einhvern vegin finnst mér það vera svo algjörlega óviðeigandi að það hálfa væri nóg, einhvern vegin er ég ekki til í að koma sjálfur inn í íbúð og allir eldhússkápar séu hálf-fullir af mat. Ég hef þó látið eftir að skilja eftir óopna pasta poka eða niðursuðudollur bara svona til að friða hann.

Reyndar hef ég verið að hugsa honum þegjandi þörfina í nótt (og reyndar um síðustu helgi líka). Það er best að segja þetta þannig að stelpan sem hann dró með sér heim í gær er ekki hljóðlát þegar að kemur að lárétta mambóinu. Mér er nákvæmlega sama hve mikið þau sofa svo lengi sem ég fái alla vega meiri svefn heldur en 3 tíma um nóttina. Eina ráðið við þessum skrækjum er að kveikja á tölvunni setja Madness á og hækka í botn. Versta er að ég held að ég sé búin að minnka heyrnina hjá mér um 25% bara þessar tvær nætur.

Reyndar get ég ekki komist inn á hótelið strax svo ég fer með Sam, kunningi okkar frá Railway, að keyra Jörn út á flugvöll. En sem betur fer hef ég ekkert betra að gera en að sofa eftir að hafa sparkað nískupúkanum út úr landi en að leggjast í bæli og fá aðeins meiri svefn. Eftir það hefst bara niðurtalningin til fimmtudags þegar undirritaður leggur af stað í hinu löngu heimferð á klakann.

28.6.07

Waitomo

Er komin til baka frá Rotorua og Waitomo, ætla reyndar ekkert að segja frá Rotorua þar sem ég hef þegar sagt frá því tvisvar. Það sem ég get alla vega sagt að við skemmtum okkur konunglega í Rotarua. Kíktum á hveragarðin sem ég er þegar búin að fara tvisvar í, fyrst í ágúst á síðasta ári og síðan með mömmu og pabba í nóvember. Síðan fórum við í luge-bílana og var mikil keppni á milli okkar að bruna niður brekkurnar, auðvitað vann Íslendingurinn allt en þeir vildu samt meina að ég hefði forskot út af þyngd....

Dagurinn var frekar kaldur og því skelltum við okkur í heita vatns laug sem er í miðri borginni. Strákunum fannst þetta frekar flott en ég kvartaði um að vatnið væri ekki nógu heitt. Þetta var reyndar mjög slakandi og fínt eftir allan kuldan fyrr um daginn. (Tekið skal fram að hitastigið var um 2-5°C allan daginn.) Eftir baðið tjékkuðum við okkur inn á Hostel áður en við röltum um tóman bæinn og fengum okkur einn öl fyrir háttinn.

Undur og stórmerki gerðust þegar ég vaknaði um morgunin það var frost yfir öllu og við þurftum meira að segja að skafa bílinn. Fyrir þá sem ekki trúa þá er til mynd af frostinu á myndasíðunni. Komumst reyndar að því að hellaferðin sem við höfðum pantað að ekki var pláss á þeim tíma og eina lausa plássið var mun fyrr svo við höfðum ekki nema 2 tíma til að koma okkur til Waitomo. Til að gera langa sögu stutta þá náðum við naumlega að koma á réttum tíma með því að sýna íslenska aksturshæfileika í frosti og að keyra alltaf 5 km hraðar en leyfilegt var...

Næsti partur í ferðinni verður að skrifast sem einn af hápunktunum af dvöl minni hér á Nýja Sjálandi. Við vorum sem sagt þrír sem fengum einn guide með okkur. Hann fór stuttlega yfir hvernig eigi að láta sig síga niður klettaveggi og síðan var lagt af stað í 3-4 tíma ferðalag um helli sem er þarna rétt hjá. Algjör snilld, 37 m sig, láta sig renna á fljúgandi ref og síðan látið sig fljóta í blautbúningi niður ánna og horft á glowworms. Á milli flota niður ánna var prílað upp og niður fossa og troðið sér inn á milli steina sem voru þaktir wetas, sem er eitt stærsta skordýr í heimi. (Fyrir þá sem muna eftir Lord of the Rings þá sá Weta um allar tæknibrellurnar en þeir eru einmitt skýrðir eftir þessu skordýri.) Þar sem við vorum aðeins þrír í hópnum vorum við leiddir næstum því um allan hellinn og meira að segja um staði sem túristar eru ekki venjulega leyft að fara í. Vatnið í hellinum var frekar kalt en maður var samt fljótur að venjast því reyndar fann maður hvað það var kalt þegar við komum aftur út undir bert loft.

Eftir magnaða ferð í gegnum hellinn lögðum við aftur af stað til Auckland og núna er maður farin að gera sér enn betur grein fyrir því hve stutt er eftir því nú er ekkert sem stendur á milli mín og heimferðarinnar.

25.6.07

Prófin búin

Kláraði síðasta prófið í gær svo núna er bara eftir að pakka og fara síðan heim. Í heildina litið gekk bara ágætlega þó að sumstaðar hefði mátt gera betur. Prófa fyrirkomulagið er dáldið skrýtið hérna. Í fyrsta lagi þá sestu inn í stofuna 15 mínútum áður en þú mátt byrja að skrifa. Þá þarftu að fylla út persónupplýsingar á lítin snepill sem og á prófbókina sjálfa, það felur einnig í sér að skrifa stúdenta númerið þitt á allar síður bókarinnar. Eftir 5 mínútur máttu byrja að lesa yfir prófið og þá máttu ekki hafa skriffæri á lofti. Þú hefur 10 mínútur til að lesa yfir prófið og þá máttu byrja að skrifa á fullu. Þegar þú ert búin að skrifa nægju þína þarftu að fylla út á forsíðunni hvaða síður þú notaðir og hvaða spurningu þú svaraðir á hverri síðu. Svör sem ekki eru merkt á forsíðunni eru ekki tekin inn í einkunina þína.

Annars er ég Jörn og Jono, strákur sem ég kynntist á Railway á síðustu önn, á leiðinni til Rotorua og Waitomo. Þetta verður þriðja ferðin mín til Rotorua en aðalatriðið fyrir mig er að fara til Waitomo í smá hellaleiðangur. Þetta verður 5 tíma þrekraun sem innifelur í sér 37 m sig niður í hellinn, smá klifur og príl þangað til að maður kemur að neðanjarðar á sem meður stekkur út í og lætur síðan strauminn bera sig nokkra kílómetra þangað til að maður kemur aftur út undir bert loft. Þetta er það sem þeir kalla Black Water Rafting og er ég búin að láta mig hlakka til þessa atburðar síðan í ágúst á síðasta ári. Ég skal reyna að vera duglegur og setja inn nokkrar myndir áður en ég kem heim en annars þurfið þið bara að koma í heimsókn...

17.6.07

Allt að klárast

Jæja, nú er maður komin undir mánaðarmarkið og sést það vel á því hvernig hugsanargangurinn er hjá manni. Það líður varla sú klukkustund að hugurinn sé komin hálfur heim á leið eða að hugsa um hvað ég eigi eftir að gera fyrir heimferðina. Auðvitað á ég ennþá eftir 2 próf en ég þarf líka að senda pakka, ganga frá íbúðinni, finna mér dvalarstað í nokkra daga (skila íbúðinni 1.júli flýg heim 5.júlí), koma mér út á flugvöll fyrir utan allt vesenið sem felst í því að pakka.

Þótt að nóg hafi verið að gera síðustu vikur í lærdómi hefur einnig gefist tími fyrir allskona skemmtun. Um daginn fékk ég hringingu frá Jono vini mínum sem bauð mér á All Black leik gegn Frakklandi. Sú ferð var algjör snilld, sátum niður við völlinn og því höfðum við skemmtilega sýn á þegar All Blacks skoruðu sem var ekki í ófá skipti. (Lokatölur 40-10 ef ég man rétt.) Jörn hafði einnig slegist með í fjör og við höfðum mjög gaman þarna á vellinum. Fengum líka hressingu frá mömmu hans Jörn um miðjan leik.

Um seinustu helgi var síðan eitt alls herjar kveðju partý hjá Jono. Þetta var svona Bring your own BBQ. Við grilluð stóðu grillmeistarar frá Zimbabwe og Suður-Afríku, menn með mikla reynslu af slíku, og var ekki hægt að kvarta undan matarleysi það kvöldið. Skemmtunin var langt fram á kvöld og ég var frekar súr að þurfa að fara heim klukkan eitt því ég þurfti að klára ritgerð fyrir mánudaginn. Þess má geta að Jörn kom ekki heim fyrr en að verða tvö daginn eftir svo mikil var skemmtunin. Endilega kíkja á myndaalbúmið en þar sést eitthvað hve stemmningin var mikil.

Í gær buðum ég og Jörn þremur Þjóðverjum í mat. En Franci og Jan höfðu keyrt okkur út á flugvöll þegar við fórum til Ástralíu svo við vorum að borga þeim greiðan. Jens fékk að slæðast með þar sem þetta var síðasta helgin hans, hann fer á mánudaginn. Maturinn var bara frekar góður hjá okkur, svo ég segi sjálfur frá, og meðal annars tókst undirritðum að snara fram mjög góðri sósu þótt að engin hefði haft trú á mér fyrirfram. Annars var það markverðasta sem gerðist að eldfasta mótið mitt sprakk inn í ofninum þegar við vorum að halda hita á steikunum á meðan ég gerði sósuna. Þetta var stórfurðulegt, allt í einu heyrðist þessi hvellur og þegar við litum inn í ofnin lágu steikurnar ofan á mölbrotinni skálinni. (Benndi á myndir enn og aftur.)

Dagurinn í dag hefur bara verið annsi rólegur, mestu farið í að leika mér og taka til en einnig hef ég eitthvað verið að kíkja í bækur fyrir prófið á þriðjudaginn. Ég er ekkert svo stressaður fyrir það en mér hefur gengið hvað best í þessu fagi á önninni. Reyndar er ég búin að vefja kennaranum um fingur mér en ég held reyndar að það hjálpi mér lítið þegar á hólmin er komið.