6.8.06

Rotorua

Er komin heim aftur eftir mjög svo skemmtilega helgarferð með nokkrum af TRC (The Railway Campus). Má segja að ég sé nokkuð þreyttur því ég er ekki búin að sofa nema í mesta lagi 6 tíma síðan á föstudaginn. Það var reyndar meira svona óvart frekar en eitthvað annað.

Vaknaði mjög snemma á laugardaginn eða klukkan 5. Ætlaði mér að horfa á beina útsendingu frá leik Man Utd og Porto. En það sem ég vissi ekki var að Sky Sports hérna er ekki það sama og er í Evrópu. Það þýddi að ég hafði ekkert að gera fyrr en klukkan 7 en þá ætlaði ég að hitta strákana. Allir voru komnir stundvíslega niður og þá var keyrt beina leið til Rotorua sem er rúmlega þriggja tíma akstur.

Eftir að hafa hent hlutunum okkar inn á Hostelið sem við gistum á var keyrt um 20 km út úr borginni aftur og að nokkrum vötnum sem eru þarna nálægt. Vötnin heit náttúrulega Maori nöfnum (sem ég man ekki) en í íslenskri þýðingu þá kallast þau Græna og Bláa vatnið, síðasta vatnið sem við fórum að var síðan Te Tarawera. Það eru nokkur vötn þarna í viðbót en við fórum ekki að þeim. Á þessu svæði er þorp sem fór undir ösku í eldgosi sem var þarna á endanverði 19. öld. Þorpið, Te Wairoa, hafði byggst upp í kringum ferðamennsku á svæðinu og voru menn aðallega að koma og baða sig í heitum uppsprettum sem voru hinu megin við vatnið. Einskonar Blátt Lón en þeirra var á stöllum í hlíðum fjallsins sem gaus.

Ég hafði mikin áhuga á að skoða þetta og þá aðallega til að bera saman við Vestmannaeyjar en strákunum fannst þetta alltof dýrt, aðgangseyrir var tæplega 1000 kr. Strákunum langaði eiginlega bara að sjá fossinn sem var partur af þessum túr. Ég skellti mér inn en strákarnir ætluðu að leyta að annari leið að fossinum. Ákveðið var að hittast eftir 40 mínútur fyrir utan safnið. Mér fannst það frekar knappur tími en hélt þó að ég gæti náð því á þeim tíma.

Þetta var mjög áhugavert svo ekki var meira sagt. Búið var að grafa upp fullt af minjum sem og að endurbyggja sum húsin sem höfðu lent undir gjósku fallinu. Eitt húsið var meira að segja næstum því í upprunalegu ástandi. (Ekki húsið í myndasafninu). Við þorpið rann lækur og þegar ég labbaði fram hjá honum varð mér hugsað til pabba. Þarna svömluðu um 5-6 punda bleikjur. Í einum hylnum taldi ég um 30 stykki. Ég hélt þó göngunni áfram þótt að löngunin að næla sér í einn var sterk. Fossinn var nokkuð tignalegur þótt að maður bjóst við meiru miðað við allar lýsingarnar sem maður var búin að lesa.

Þegar ég kláraði túrinn minn voru akkúrat liðnar 40 mínútur en ekkert bólaði á strákunum. Leið og beið þangað til 40 mínútum síðar þeir birtust. Þá höfðu þeir lent í miklum hrakningum að finna leið að fossinum sem endaði með því að þeir voru komnir inn á ræktunarsvæði fyrir kannabisplöntur, eða svo sagði maðurinn á safninu þegar þeir komu til baka. Það var alla vega mikið gert grín af þessu og var jafnvel byrjað að minnast á ópíumakrana sem þeir höfðu ratað inn á...

Eftir við höfðum troðið í okkur pizzum frá Helvíti (Er keðja þar sem þemað er allt tengt helvíti. Pizzurnar hétu nöfnum eins og: Leti, Hégómi, Reiði, Græðgi.) lá leið okkur upp á nálægt fjall. Þar höfðu heimamenn fundið upp enn einu adrenalín sportinu. Í hlíðunum var búið að koma fyrir akstursbraut þar sem hægt var að velja um 3 mismunandi erfiðleika flokka. Á þessum brautum var eikið sleðum sem voru bara knúnir áfram með þyngdaraflinu. Hreinasta snilld og hér legg ég formlega fram þá hugmynd að breyta neðsta hluta Esjunnar í Luge (Þyngdarsleði?) garð.

Ég, Matthew og Josh vorum í mikilli keppni og kláruðum ferðirnar okkar mun fyrr en hinir strákarnir. Á meðan við biðum prófuðum við rólu sem var þarna líka. Þessi róla byrjar á því að toga þig í 45 m hæð og sleppir þér síðan. Þú nærð 120-130 km/klst þegar mest er. Þetta var ótrúlega gaman þótt að sveiflan hefði verið í dýrara lagi.

Þegar við komum heim aftur á Hostelið voru menn orðnir annsi þreyttir. Við slöppuðum af í smá tíma og spjölluðum um daginn og næsta dagi. Loksin upp úr átta var farið niður í eldhús og einhvers slags spaghetti réttur galdraður fram. Eftir matin var aðeins kíkt á barin sem var við hliðina á en engin hafði úthald lengur en klukkan 1.

Í morgun var vaknað snemma og stefnan sett á Waiotapu sem er hverasvæði rétt hjá Rotorua. Við vorum komnir á staðin klukkan 10 en það var tímanlega fyrir að sjá Lady Knox gjósa. Ég verð að segja að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum að sjá þennan hver því ég bjóst við Strokki eða einhverju álíka. Auðvitað svindluðu þeir aðeins og henntu bara sápu ofan í hann. (Þeir segja að einhver gaur hafi uppgötvað þetta fyrir slysni þegar hann var að baða sig í nágrenninu fyrir nokkrum árum....) Annars var mjög gaman að labba um svæðið. Ótrúlegt hvað var mikið af gróðri og dýralífi í kringum allt þetta súlfur sem kom upp úr iðrum jarðar. Það ringdi alveg rosalega meðan við vorum þarna og þið getið kannski greint hvað mikið af myndunum.

Eftir að við höfðum fengið okkur að borða var ákveðið að kíkja á Zorb sem var þarna áður en við myndum halda heim á leið. Zorb er plast kúla með minni kúlu innan í. Slatta af volgu vatni er hent inn í kúluna og síðan þér. Kúlunni er síðan rúllað niður brekku á meðan þú þeytist um og hlærð eins og vitleysingu. Þetta var ótrúlega gaman og ég mun örugglea endurtaka þetta áður en ég fer heim.

Þegar við komum til Auckland hentum við dótinu okkar inn í TRC og skruppum síðan í mega Bónus. En þar voru hillur hátt í 10 háar og inn í stórri vöruskemmu. Verslaði fyrir matin á morgun og fórum síðan heim. Lentum reyndar í rosa veseni þegar nokkrir af strákunum keyptu sér áfengi. Hérna eru nefnilega mjög ströng lög hvað varðar sölu á áfengi í matvöruverslunum og því taka þeir engin skilríki gild nema Ný Sjálensk eða passa og auðvitað var engin með passan sinn nema einn okkar sem reddaði síðan málum.

Þegar heim var komið henti ég dótinu frá mér og gat varla gert neitt nema kíkja á helstu fréttir, skrifa þennan pistil og tala við mömmu og pabba á skypeinu.

2 Comments:

At 4:36 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Madur verdur ad nota slikar adferdir til ad senda Afmæliskvedjur, degi of seint, en seint er betra en aldrei... thar sem eg hef ekki hugmynd um simanumer eda tølvupostfang...

Kvedja fra Nossaranum og fjølskyldu.

 
At 1:04 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hljómar eins og geðveik ferð :)

 

Skrifa ummæli

<< Home